Njarðvík knúði fram hreinan oddaleik um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta eftir glæsilegan sigur á Haukum, 94:78, í Innri-Njarðvík á laugardagskvöldið. Liðin leika því hreinan úrslitaleik í Hafnarfirði annað kvöld.
Njarðvíkurkonur stungu af í seinni hálfleik þegar þær náðu 26 stiga forystu og sigur þeirra var aldrei í hættu á lokasprettinum.
Brittany Dinkins skoraði 29 stig fyrir Njarðvík, Paulina Hersler 16, Hulda María Agnarsdóttir 13 og Lára Ösp Ásgeirsdóttir 12. Paulina og Emilie Hesseldal tóku 14 fráköst hvor.
Lore Devos var með 26 stig og 15 fráköst fyrir Hauka, Rósa Björk Pétursdóttir skoraði 17 og Þóra Kristín Jónsdóttir var með 12 stig og 9 stoðsendingar.