Anna Vilhjálmsdóttir fæddist í Reykjavík 14. september 1945. Hún lést 23. apríl 2025.
Foreldrar hennar voru Sveinjóna Vigfúsdóttir hárgreiðslukona og Vilhjálmur Schröder framreiðslumaður. Hún var næstelst sex systkina sem öll eru látin nema tvö yngstu.
Anna ólst upp í Reykjavík framan af en fjölskyldan flutti í Garðahrepp þegar Anna var á unglingsaldri. Hún giftist Herði Haraldssyni 1963 og eignuðust þau tvær dætur; Önnu Magneu og Hrefnu Guðrúnu. Barnabörn hennar er sex og barnabarnabörnin fjögur.
Anna bjó á höfuðborgarsvæðinu til 1971 þegar hún fluttist til Bandaríkjanna og dvaldi þar til 1978. Hún bjó í Reykjanesbæ frá 1978 til 1986 þegar hún flutti aftur á höfuðborgarsvæðið. Síðast bjó hún með Einar Ólafi Sigurjónssyni í Hafnarfirði, en síðustu fimm ár dvaldi hún á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún lést eftir mikil og erfið veikindi.
Anna starfaði frá unga aldri sem söngkona í hinum ýmsu hljómsveitum en hún starfaði einnig m.a. í gömlu flugstöðinni, á Sólvangi og í verslun varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli.
Útför hennar fer fram frá Víðistaðakirkju í dag, 12. maí 2025, kl. 15.
Elsku amma Anna. Þú varst hlý, glöð, hreinskilin og fyndin – kona sem lést engan ósnortinn og varst alltaf hjarta og bros hverrar samverustundar. Þú hlóst, þú studdir, þú hlustaðir – og þú sagðir hlutina beint út, af ást og umhyggju.
Þú elskaðir að syngja og spila, og ekkert gladdi þig meira en að vera umkringd barna- og langömmubörnum þínum. Þú gafst okkur ekki aðeins ást, heldur sanna vináttu – því þú varst ekki bara amma, heldur trúnaðarvinur okkar.
Það var alltaf hægt að kíkja í gott spjall við þig og alltaf fór maður jákvæðari og hlýrri heim.
Sérstaklega vil ég nefna Heiðrúnu og Hrund, sem voru þér ekki aðeins barnabörn heldur þínir bestu vinir.
Þökk sé þeim fékkstu að fara í síðustu draumaferðina þína erlendis – ferð sem skipti þig miklu máli og gladdi það okkur öll að þig gat dreymt það og framkvæmt.
Ég er líka svo þakklátur fyrir þann kærleika sem þú sýndir langömmubörnunum þínum, Hrafntinnu, Mána, Heklu og Lilju. Þau fengu að kynnast einstakri konu sem kenndi þeim hlátur, hlýju og umhyggju – og þau munu alltaf bera þig í hjarta sér.
Það sem stendur skýrt eftir er hvernig við gátum alltaf leitað til þín – hvort sem það var til að hlæja, gráta eða bara ræða málin hreinskilnislega. Þrátt fyrir veikindi varstu alltaf hress, alltaf stutt í grínið og mikill hrókur alls fagnaðar.
Ég elska þig og sakna þín.
Þín rödd, þinn hlátur og þín vinátta mun aldrei gleymast.
Þín barnabörn,
Stefán, Kristján og
Þórarinn (Dengsi).
Þá hefur elsku Anna mín sungið lokalagið í þessari vídd og langri veikinda- og þrautagöngu lokið. Við sáumst fyrst þegar Anna kom kornung að syngja á nokkrum sveitaböllum með hljómsveit Óskars Guðmunds. Þar smullum við saman í „Skálasjoppunni“ og vissum alltaf hvor af annarri síðan. Anna varð fljótt vinsæl fyrir sinn einlæga og flotta söng og var jafnvíg á allar tegundir tónlistar. Anna söng með ýmsum hljómsveitum bæði hérlendis og erlendis en stofnaði síðar sína eigin og hélt því alla tíð þótt nöfnin á þeim hafi tekið breytingum. Svo kom danshúsið Næturgalinn til sögunnar sem hún stýrði með stæl um tíma. Þar stóð hún í brúnni og hélt uppi stuðinu ásamt hljómsveit sinni með rokki og róli föstudags- og laugardagskvöld, en á sunnudagskvöldum kom ég til sögunnar með mína menn og bauð upp á gömlu og nýju dansana og línudansinn sem þá var að koma sterkur inn. Þá kom drottningin sjálf og tók kántrílögin með trukki og dýfu.
Já, það er sannarlega margs að minnast og vegirnir okkar hafa víða legið saman í gegnum smáflókin fjölskyldubönd. En ég var svo heppin að geta kíkt reglulega til hennar og þvælst svolítið með henni þegar Hrafnistudvölin kom til sögunnar. Þar áttum við góða spretti saman og gátum hlegið, sprellað og grátið smá, en rætt málin til hlítar. Það er með söknuði og trega sem ég kveð Önnu vinkonu mína og bið algóðan Guð að blessa fjölskyldu hennar sem var henni svo hjartfólgin og alla hennar góðu vini.
Far þú í friði kæra Anna.
Hjördís Geirsdóttir.