Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skipað stýrihóp um endurskoðun á byggingarreglugerð. Hópnum er ætlað að vinna tillögur um gagngerar breytingar á regluverkinu með áherslu á að einfalda umgjörð um byggingariðnað til að lækka byggingarkostnað og leggja grunn að stöðugleika á húsnæðismarkaði. Honum er einnig ætlað að fylgja tillögunum eftir og vinna að breyttu fyrirkomulagi byggingareftirlits til að auka neytendavernd og draga úr byggingargöllum. Í hópnum eru Hreiðar Ingi Eðvarðsson formaður, fulltrúi ráðherra, Hildur Dungal, fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðuneytis, Helga María Pálsdóttir, fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga, Hermann Jónasson, fulltrúi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, og Sigurður Hannesson, fulltrúi Samtaka iðnaðarins.