
Scott Bessent fjármálaráðherra Bandaríkjanna tilkynnti samkomulag milli Bandaríkjanna og Kína um að draga tímabundið úr þeim tollum sem ríkin hafa lagt hvort á annað. Er þetta tilraun til að slíðra sverðin í tollastríðinu.
Í sameiginlegri yfirlýsingu ríkjanna kemur fram að þau muni fresta tollum í 90 daga til að skapa svigrúm fyrir samningaviðræður. Munu Bandaríkin lækka tolla á kínverskan innflutning niður í 30 prósent, en þeir voru fyrir 145 prósent. Á sama tíma mun Kína lækka tolla á bandarískar vörur úr 125 prósentum í 10 prósent.
Gjaldmiðill Bandaríkjanna féll nokkuð við upphaf tollastríðsins í apríl sl. en hefur styrkst á ný.
Stjórnvöld í Kína segja þessa ákvörðun vera í þágu beggja ríkja með hagsmuni heimsins alls að leiðarljósi.