
Heilsulindin Lisa Spa í Mjódd var innsigluð í gær að beiðni Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Óskað var eftir aðstoð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við verkið.
Heilsulindinni var lokað vegna þess að ekki var gilt starfsleyfi fyrir starfseminni og verður staðurinn lokaður þar til úrbætur hafa átt sér stað.
Heimir Ríkharðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfesti aðkomu lögreglunnar í samtali við mbl.is en hafði ekki frekari upplýsingar um málið. Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Sunna Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, að engin rannsókn sé í gangi af hálfu heilbrigðiseftirlitsins, heldur aðeins kröfur um úrbætur.