
Margrét Gísladóttir
Eftirlitsgjöld Matvælastofnunar munu hækka um 30% um næstu mánaðamót, verði drög að nýrri gjaldskrá stofnunarinnar samþykkt af atvinnuvegaráðherra. Sú hækkun bætist við þær miklu hækkanir sem urðu síðasta sumar þegar grundvallarbreytingar voru gerðar á gjaldheimtu vegna eftirlits.
Verði þessar boðuðu hækkanir nú að veruleika mun það þýða að á 13 mánuðum hefur gjald fyrir daglegt eftirlit í sláturhúsum hækkað um 109% og fyrir önnur verkefni um 47%. Að auki er gert ráð fyrir frekari hækkunum á komandi árum.
Samtök fyrirtækja í landbúnaði hafa gagnrýnt þessar breytingar harðlega, sérstaklega í ljósi þess að þær hafa verið innleiddar með litlu samráði og án þess að umræða hafi átt sér stað á pólitískum vettvangi.