
Sviðsljós
Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Utanríkisráðuneytið hefur hafnað umsókn Rastar sjávarútvegsseturs ehf. um leyfi til vísindarannsóknar í Hvalfirði sem felast átti í því að dæla þrjátíu tonnum af vítissóda í sjóinn í firðinum. Leysa átti vítissódann upp í vatni og átti að dæla 200 tonnum af blöndunni í sjóinn. Tilgangurinn var að kanna hvort aðgerðin gæti aukið upptöku sjávar á koldíoxíði úr andrúmslofti, án þess að til súrnunar sjávarins kæmi, sem og hvort þessi aðferð gæti dregið úr eða takmarkað súrnun sjávar.
Samþykki fyrir vísindalegum rannsóknum innan lögsögu Íslands er háð samþykki íslenskra stjórnvalda og fer utanríkisráðuneytið með slíkar leyfisveitingar skv. venju, að því er fram kemur í bréfi ráðuneytisins.