
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Starfsemi Fjölskylduhjálpar er í uppnámi og útlit er fyrir að henni verði hætt í haust. Miklu af mat sem fæst gefins frá fyrirtækjum er úthlutað til þurfandi en erfitt er að standa undir föstum kostnaði við reksturinn og endurnýja þarf tækjakost. Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálparinnar, furðar sig á að samtökin hafi verið hundsuð þegar félags- og húsnæðismálaráðuneytið úthlutaði styrkjum á sviði félags- og velferðarmála fyrir skemmstu.
„Við erum búin að segja upp leigunni og ég á von á því að það verði lokað 1. september,“ segir Ásgerður Jóna. Hún er með böggum hildar yfir stöðu mála enda hefur Fjölskylduhjálpin verið starfrækt í 22 ár og þörfin fyrir aðstoð er síst minni nú en í upphafi starfseminnar.