
Friedrich Merz Þýskalandskanslari varaði við því í gær að ef engin hreyfing yrði á friðarviðræðum á milli Rússlands og Úkraínu í þessari viku, þá myndu ríki Evrópu herða verulega á viðskiptaþvingunum sínum gagnvart Rússlandi.
Merz skoraði einnig á Vladimír Pútín Rússlandsforseta að mæta til fundar í Istanbúl á morgun, fimmtudag, og samþykkja vopnahlé en Volodimír Selenskí Úkraínuforseti hefur sagt að hann muni bíða þar eftir Pútín.
Hrósaði Merz Selenskí fyrir hugrekki sitt og sagði að stríðinu yrði að ljúka. „Og þess vegna veitum við einnig hernaðaraðstoð, og ef það er nauðsynlegt munum við veita Úkraínumönnum hernaðaraðstoð í mörg ár ef stríðinu lýkur ekki,“ sagði Merz, en ríkisstjórn hans ákvað í vikunni að greina ekki lengur opinberlega frá því nákvæmlega í hverju herstuðningur Þjóðverja fælist.
...