
„Nú skín sólin og það eru draumadagar í svona vinnu úti á vegunum,“ segir Birgir Blöndahl Arngrímsson, verkefnisstjóri hjá Colas Ísland. Starfsmenn fyrirtækisins settu allt á fullt í eftirmiðdaginn í gær og fræstu upp malbikskafla á Reykjanesbraut við Voga á Vatnsleysuströnd. Kaflinn sá er um 770 m langur og var umferð þrengd inn eina á akrein fram hjá framkvæmdasvæðinu. Nýtt malbik verður svo lagt út á þessum sama stað í dag, miðvikudag.
„Fræsing annan daginn og malbik þann næsta. Þannig er gangurinn í okkar starfi,“ segir Birgir um verkefnið. Svona verða alls tíu bútar á Reykjanesbrautinni teknir nú á vordögum. „Ástand vegarins er orðið hrikalegt og raunar mjög hættulegt. Víða eru djúp hjólför og holur. Þessu fylgir slysahætta svo sem þegar vatnsagi er í rásum á veginum. Vinnan nú er því mjög aðkallandi,“ segir Birgir.
Öryggis vegna er hámarkshraði bíla sem aka nærri verkstað lækkaður niður í 50 km/klst. og viðeigandi
...