Maístjarnan í ár Þórdís Gísladóttir veitti ljóðabókaverðlaununum viðtöku í Þjóðarbókhlöðunni síðdegis í gær.
Maístjarnan í ár Þórdís Gísladóttir veitti ljóðabókaverðlaununum viðtöku í Þjóðarbókhlöðunni síðdegis í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rithöfundurinn og skáldið Þórdís Gísladóttir hlaut í gær ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna fyrir bók sína Aðlögun, sem Benedikt bókaútgáfa gefur út, en athöfnin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

Rithöfundurinn og skáldið Þórdís Gísladóttir hlaut í gær ljóðabókaverðlaunin Maístjörnuna fyrir bók sína Aðlögun, sem Benedikt bókaútgáfa gefur út, en athöfnin fór fram í Þjóðarbókhlöðunni. „Þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig en í fyrsta lagi fannst mér mikill heiður að vera tilnefnd með fimm öðrum höfundum sem ég ber mikla virðingu fyrir. Það skiptir líka miklu máli að hafa þessi ljóðaverðlaun sem Kári Tulinius átti hugmyndina að því ljóðabækur lenda svolítið til hliðar. Þær eru ekki endilega tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og því eru þessi verðlaun mjög mikilvæg. Svo er líka gaman að hafa bókmenntaverðlaun á þessum árstíma þegar allt kafnar ekki í jólabókaflóðinu,“ segir hún og hlær.

Auk bókar Þórdísar voru tilnefndar Ég hugsa mig – Nokkur ljóðaljóð og sagnir eftir Anton Helga Jónsson, Geðhrærivélar eftir Árna Jakob Larsson, Þar sem dragsúgurinn er hvítur refur eftir Eyþór Árnason, Flaumgosar eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og Ógeðslegir hlutir eftir Sunnevu Kristínu Sigurðardóttur.

Ljúfsár og fyndin bók

Aðspurð segist Þórdís alls ekki hafa átt von á því að vinna. „Ég var tilnefnd til þessara verðlauna fyrir mörgum árum fyrir bók sem kom út árið 2016 en ég hef hlotið mun fleiri tilnefningar en verðlaun svo þetta kom mér á óvart. Það kom mér líka á óvart að vera tilnefnd því ég verð alltaf jafn hissa þegar verkin mín rata til þeirra sem sjá um að tilnefna,“ segir hún og tekur fram að hún sé bæði auðmjúk og þakklát. „Lífið er ekki keppni og ekkert okkar vinnur lífið því við deyjum öll. Ég er því fyrst og fremst mjög þakklát að einhver vilji lesa ljóðin mín og að dómnefndin, sem lagðist yfir allar ljóðabækur sem komu út 2024, kunni að meta mína bók.“ Í umsögn dómnefndar um bókina segir meðal annars að Aðlögun sé ljúfsár og fyndin bók um hið hversdagslega, ógeðslega, fallega og óþolandi sem við þurfum að aðlaga okkur að og stundum umbera. „Ljóðin eru beitt, háðsk og snerta lesandann á djúpan og óvæntan hátt.“

Þá segist Þórdís einna helst sækja innblástur úr umhverfinu og hversdagsleikanum. „Oft er ég bara að hugsa um eitthvað í samtímanum sem leiðir mig svo í ýmsar áttir en þemað í bókinni er aðlögun, bæði í þróunarfræðilegri eða líffræðilegri merkingu og í samfélagslegum skilningi. Lífverur sem aðlagast lifa af, aðrar ekki, og því þurfum við sífellt að vera að aðlagast umhverfinu og tipla á tánum í lífinu.“

Langar í gróðurhús

Húmor er Þórdísi hugleikinn enda segist hún varla skilja húmorslaust fólk. „Ég skil ekki þegar fólk tekur lífið of alvarlega þótt maður verði auðvitað að gera það upp að vissu marki,“ segir hún og bætir því við aðspurð að ljóðin komi oftast auðveldlega til sín. „Ef ég ætti erfitt með að yrkja þá færi ég að gera eitthvað annað. Auðvitað er þetta samt heilmikil vinna og miðað við hvað ljóðabækur eru oft þunnar þá eyðir maður ómældum tíma í þær. Ég velti hlutunum oft lengi fyrir mér en svo rúllar þetta bara enda er ég alltaf að semja eitthvað. Ég flakka á milli þess að skrifa skáldskap fyrir börn og fullorðna og hef skrifað kennsluefni og efni fyrir útvarp og sjónvarp en ég skrifa hins vegar ljóð þegar ég tek mér pásu frá öðrum skrifum. Ljóðin eru svo þægileg að þessu leyti en mín ljóð eru oft litlar örsögur sem ég skrifa til að vinda ofan af mér á meðan hitt mallar einhvers staðar í kollinum.“

Innt að lokum eftir því hvort hún sé búin að ráðstafa verðlaunafénu, að upphæð 350.000 krónur, í eitthvað sérstakt stendur ekki á svari. „Ég býð kannski bara barnabörnunum út að borða,“ segir hún hlæjandi. „En mig langar reyndar mjög mikið í gróðurhús svo ég læt kannski verða af því að setja verðlaunaféð í gróðurhúsasjóðinn minn.“

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir