Hrafn Bragason fæddist 17. júní 1938. Hann lést 28. apríl 2025.
Útför hans fór fram 16. maí 2025.
Genginn er, saddur lífdaga, frændi minn Hrafn Bragason. Hann skilur eftir sig djúp spor í íslensku réttarsamfélagi sem og í hjörtum þeirra sem honum voru nákomnir. Fyrir mér var Hrafn ekki aðeins virtur lögfræðingur og góður dómari, heldur fyrst og fremst kær móðurbróðir. Mér fannst alltaf vera sérstakur strengur á milli okkar Hrafns þar sem við deildum sama afmælisdegi en þrjátíu ár skildu okkur að. Miklir kærleikar voru með Hrafni og móður minni Þórunni sem helgaðist m.a. af því að þau fluttu bæði ung til Reykjavíkur, Hrafn til að stunda nám í lögfræði en móðir mín að fylgja föður mínum Birni Þ. Guðmundssyni sem einnig nam lögfræði. Voru þeir mágar svo lengi vel samdómarar við Borgardóm. Eðlilega var því mikill samgangur á milli fjölskyldna okkar. Samskipti mín við Hrafn voru þó helst vegna vináttu okkar Barkar sonar hans sem hófst í bernsku og leiddi m.a. til þess að við stofnuðum saman lögmannsstofu fyrir rúmum aldarfjórðungi. Það var dýrmætt fyrir unga lögmenn sem voru að stíga sín fyrstu skref í lögmennsku að geta leitað til jafn reynslumikils lögfræðings og Hrafn var til að takast á við ýmis lögfræðileg álitaefni. Einnig skipti miklu máli sá stuðningur sem Hrafn og eiginkona hans, Ingibjörg, veittu fjölskyldu Barkar á upphafsárum reksturs okkar Barkar. Ljóst er að án þess stuðnings hefði uppbygging og rekstur fyrirtækis okkar frænda verið mun erfiðari. Mun ég ætíð vera þakklátur fyrir hlut þeirra hjóna í því að gera okkur frændum kleift að láta draum okkar um rekstur eigin lögmannsstofu rætast.
Hrafn og Ingibjörg voru samrýnd hjón og það var því Hrafni þungt högg þegar Ingibjörg féll óvænt frá árið 2007 þegar við blasti langt og hamingjuríkt ævikvöld. Hrafn bar sorgina með sömu reisn og yfirvegun og hann sýndi sem dómari en starfsferill hans var markaður af fagmennsku, virðingu fyrir lögunum og djúpri réttlætiskennd. Hið virðulega fas dómarans mun þó hverfa eins og dögg fyrir sólu þegar hann fellur nú loksins í faðm ástkærrar eiginkonu sinnar þegar andar þeirra sameinast á nýjum stað.
Ég kveð Hrafn frænda með djúpri virðingu og innilegri þökk. Megi Guð styrkja alla þá sem syrgja og varðveita minningu hans.
Bragi Björnsson.
Þegar fjölskylda mín fluttist frá Norðfirði til Akureyrar sumarið 1945 og settist að í húsinu við Helgamagrastræti 28 bjó fjölskylda Hrafns Bragasonar í húsinu næst fyrir neðan, við Bjarkarstíg 7, ásamt fjölskyldu sinni, Helgu Jónsdóttur og Braga Sigurjónssyni, alþingismanni og rithöfundi, og systkinum sínum. Hrafn varð fyrsti vinur minn á Akureyri. Gengum við saman í Barnaskóla Akureyrar, Gagnfræðaskóla Akureyrar og Menntaskóla Akureyrar, þar sem við lukum stúdentsprófi vorið 1958. Báðir stunduðum við nám samtímis í Háskóla Íslands, hann í lögfræði, ég í íslenskum fræðum. Hrafn var búsettur í Reykjavík, en ég lengst af á Akureyri, en við hittumst á stúdentsafmælum hópsins og oft endranær. Hrafn var hæfileikaríkur en hógvær og gat sér hvarvetna gott orð, var trúað fyrir mörgum vandasömum verkum. Blessuð sé minning Hrafns Bragasonar.
Tryggvi Gíslason, fv. skólameistari Menntaskólans á Akureyri.