Andrés Magnússon
Andrea Sigurðardóttir
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að stjórnvöld eigi í miklum samskiptum við atvinnulífið á ýmsum sviðum og að þau verði ekki vanrækt.
Hún vill ekki tjá sig með beinum hætti um ákall Samtaka atvinnulífsins (SA) um „samtal“ atvinnulífs og stjórnvalda vegna efnahagsóvissu og samkeppnishæfni, sem Jón Ólafur Halldórsson, nýkjörinn formaður SA, lét í ljós í viðtali við Morgunblaðið; það gerist á öðrum vettvangi.
„Ég veit t.d. að það hefur verið mjög virkt samtal við ferðaþjónustuna varðandi útfærslur á aðgangsstýringu,“ sagði ráðherra í samtali við blaðið að loknum ríkisstjórnarfundi í gær.
„Við viljum gera þetta vel, viljum afla góðra gagna og greininga, því margt er furðuóljóst, eins og bara talningar á ferðamönnum. En við vonum að ráðherra leggi fram áform í samráð síðla sumars og atvinnugreinin fái alveg 12 mánaða rými til aðlögunar.“
En aðrar greinar?
„Orkumálaráðherra er sömuleiðis í mjög virku samtali við orkugeirann. Hann er ekki hér á ríkisstjórnarfundi af því að hann er fyrir norðan á Samorkuþingi. En það samstarf hefur gengið alveg ofboðslega vel.“
Forsætisráðherra ítrekar að það eigi við um fleiri hagaðila í Húsi atvinnulífsins.
„Við erum farin af stað í mótun atvinnustefnu og þar munu hagsmunaaðilar auðvitað koma að og hafa raunar lýst sig fúsa til slíks samstarfs.
Það þýðir ekki endilega að hagsmunasamtökin sitji í atvinnustefnuráðinu, það kann að reynast betur að þeir hafi ytri augu á því, en það er góður grundvöllur að opnum samskiptum um atvinnulífið í heild sinni,“ segir forsætisráðherra og nefnir að hún hafi átt fundi með Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og fleiri, þó vissulega geti skoðanir verið skiptar.
„Það virka samtal hefur því að mínu mati verið í gangi.“
Atvinnuvegaráðherra
Alltaf samtal en þó ekki
„Við erum alltaf í samtali við Samtök atvinnulífsins. Ég hef reyndar ekki hitt nýjan formann og kannast ekki við að hann hafi kallað eftir fundi,“ segir Hanna Katrín Friðriksson um ákall SA eftir „samtali“ atvinnulífs og stjórnvalda. „Hann kemur þá bara til mín með þær hugmyndir.“