Húsavík Inga Sæland gaf sig á tal við heimilisfólk á Hvammi eftir að hún undirritaði samkomulag við Norðurþing um byggingu nýs hjúkrunarheimilis.
Húsavík Inga Sæland gaf sig á tal við heimilisfólk á Hvammi eftir að hún undirritaði samkomulag við Norðurþing um byggingu nýs hjúkrunarheimilis. — Ljósmynd/Gaukur Hjartarson
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, undirrituðu í gær samning sem ætlað er að tryggja framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík. Árið 2021 var skóflustunga tekin að nýju…

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings, undirrituðu í gær samning sem ætlað er að tryggja framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík.

Árið 2021 var skóflustunga tekin að nýju hjúkrunarheimili við Auðbrekku 2 og í kjölfarið grafið fyrir grunni hússins. Ekkert varð hins vegar af sjálfri byggingu hjúkrunarheimilisins.

Tekur við af Hvammi

Viðstaddir undirritunina í gær voru íbúar hjúkrunarheimilisins Hvamms en áðurnefnt framkvæmdasvæði er þar fyrir aftan. Á nýja hjúkrunarheimilinu verða 60 hjúkrunarrými og munu allir 54 íbúar Hvamms flytja þangað yfir þegar heimilið verður opnað. Nýja heimilið leysir þannig það eldra af hólmi, auk þess sem hjúkrunarrýmum í sveitarfélaginu fjölgar um sex.

Samkvæmt samningnum útvegar Norðurþing ríkinu lóðina og á næstu dögum verður auglýst eftir aðila til að byggja hjúkrunarheimilið. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í desember á þessu ári eða í janúar 2026 og standi til loka árs 2027. Ríkið mun síðan leigja húsið með leigusamningi til 20-30 ára. Fyrirkomulagið sem gengið var út frá þegar grafið var fyrir grunni hússins gerði ekki ráð fyrir leigusamningi.

„Nú spýtum við í lófana og tryggjum íbúum Norðurþings hjúkrunarheimilið sem þeir hafa beðið eftir svo árum skiptir,“ er haft eftir Ingu Sæland í tilkynningu frá ráðuneyti hennar.

Hjúkrunarrými

Tilkynnt var um samkomulag í mars sl. milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu hjúkrunarheimila.

Ráðgert er að taka í notkun 120 hjúkrunarrými á þessu ári og bæta við 600 nýjum á árunum 2026-2028.

Í maí var tekin skóflustunga að hjúkrunarheimili í Hveragerði og breyta á gömlum höfuðstöðvum Icelandair við Hótel Natura í hjúkrunarheimili.