Subbuskapur Þetta skammtímastæði á Völlunum er orðið að geymslusvæði fyrir rusl, ferðahýsi og rútubíla.
Subbuskapur Þetta skammtímastæði á Völlunum er orðið að geymslusvæði fyrir rusl, ferðahýsi og rútubíla. — Morgunblaðið/KHJ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjólhýsi, húsbílar, aftanívagnar, bílhræ og rútubílar hafa staðið mánuðum og jafnvel árum saman á bílastæði við Hótel Velli í Hafnarfirði. Bílastæðið er merkt sem þriggja klukkustunda skammtímastæði en fæstir fylgja þeim reglum

Diljá Valdimarsdóttir

dilja@mbl.is

Hjólhýsi, húsbílar, aftanívagnar, bílhræ og rútubílar hafa staðið mánuðum og jafnvel árum saman á bílastæði við Hótel Velli í Hafnarfirði. Bílastæðið er merkt sem þriggja klukkustunda skammtímastæði en fæstir fylgja þeim reglum.

Eiríkur Hilmarsson hótelstjóri segir ástandið vera afar slæmt fyrir ásýnd hótelsins og hverfisins í heild. Eiríkur segist margsinnis búinn að óska eftir fundi með bæjarstjórn en hún sé hætt að svara forstöðumönnum hótelsins. „Þetta er náttúrulega bara skandall. Þetta er mjög vont fyrir hverfið og þetta er það fyrsta sem maður sér af Hafnarfirði þegar maður keyrir frá Keflavík. Þetta er algjör ósómi,“ segir hann.

Hótelið hefur ítrekað krafist þess að bílarnir verði fjarlægðir og voru nokkrir númerslausir bílar fjarlægðir í fyrrasumar eftir stanslausar kvartanir frá hótelinu. Önnur ökutæki, hjólhýsi, húsbílar og fellihýsi voru þó hvorki fjarlægð né sektað vegna þeirra.

Hótelið leigir bílastæðið af Hafnarfjarðarbæ og segir Eiríkur gesti hótelsins ítrekað kvarta yfir sóðalegu bílastæði fyrir utan hótelið. „Þetta er búið að vera okkur hjartans mál í langan tíma. Þetta er bara orðið að algjörum ruslahaug. Bærinn getur alveg gert eitthvað í þessu, þar sem hann á stæðin. Við fáum engar upplýsingar frá bænum varðandi hvenær eigi að grípa til aðgerða á svæðinu. Ég hef varið bílastæðin sem liggja næst hótelinu eins og ljón til að tryggja að gestir okkar séu ánægðir og fái að nota stæðin sem tilheyra þeim.”

Merkt sem skammtímastæði

Bílaplanið er merkt af Hafnarfjarðarbæ sem skammtímastæði en fæstir virða þær reglur. Sævar Guðmundsson, aðstoðarvarðstjóri hjá lögreglunni í Hafnarfirði, segir bæinn ekki geta skellt upp skilti og vonast til þess að lögreglan ein leysi úr þeim vanda sem skapast hafi og sekti þá sem leggi of lengi. Það sé alfarið á ábyrgð bæjarins.

Lögreglan hafi ekki heimild til að sekta þá bíla sem lagt sé á lóðinni. Lóðin sé í eign Hafnarfjarðarbæjar og því beri bænum að sjá um allt eftirlit með bílastæðamálum á svæðinu. Sævar segir bílastæðið vera orðið „samansafn af drasli“ en það sé þó ekki hlutverk lögreglunnar að bregðast við.

Bærinn hefur hins vegar ekki heldur heimild til þess að sekta en það stendur þó til að bílastæðasjóður verði settur á laggirnar í Hafnarfirði svo að hægt verði að sekta þá bíla sem lagt er með ólögmætum hætti.

Í minnisblaði frá umhverfis- og skipulagssviði segir að meta þurfi stöðu á bílastæðum og greina þurfi um leið nýtingu á þeim. Bærinn hyggst fá greiningaraðila í verkið en óvíst er hvort aðstæður við bílastæðið á Tjarnarvöllum verða skoðaðar samhliða.

Uppbygging hefur gengið hægt

Mikil uppbygging stóð til á Tjarnarvöllum í Hafnarfirði, en framkvæmdum hefur miðað hægt og lítið hefur gerst á svæðinu síðastliðin ár. Þrátt fyrir áætlanir um þróun íbúðarbyggðar og atvinnuhúsnæðis eru fjölmargar lóðir enn óbyggðar og nýtast því lítið. Lóðirnar eru ósjaldan notaðar sem geymslusvæði fyrir vörubíla, vinnuvélar, bílhræ, aftanívagna og fleira drasl án sérstakrar aðkomu eða samþykki frá bænum. Sævar segir ábyrgðina sömuleiðis liggja hjá Hafnarfjarðarbæ. „Það þyrfti að byggja á þessum lóðum, þá myndu bílastæðin nýtast fyrir einhverja starfsemi í stað þess að vera fullar af bílum og aftanívögnum.”

Íbúar eru afar ósáttir

Umræður um aðstæður á bílastæðum og lóðum við Tjarnarvelli hafa ítrekað komið upp á íbúafundum á Völlunum. Íbúar eru afar ósáttir við að verktakar hafi komið sér fyrir á bílastæðum og skilið þar eftir rusl og ónýt tæki sem mengi umhverfið verulega. Íbúi segir verktaka einnig hafa verið að leggja við kirkjuna og sundlaugina á Ásvöllum, þar sem fjöldi barna eigi leið um daglega.

Gríðarlegur fjöldi barna stundar íþróttir á svæðinu og stafar því mikil hætta af þessu. Í október árið 2023 lést átta ára gamall drengur á svæðinu, en hann var á reiðhjóli þegar hann varð fyrir steypubíl. Slysið hafði gríðarleg áhrif á alla íbúa hverfisins og hafa íbúar lýst yfir miklum áhyggjum af öryggi barna í hverfinu. „Við höfum gríðarlegar áhyggjur af öryggismálum barna í hverfinu, fyrir utan það að þetta er ekki gott útlitslega. Þetta er mikið lýti, ekki aðeins fyrir Hafnarfjörð heldur einnig höfuðborgarsvæðið. Það koma tugir ferðamanna til landsins og þetta er það fyrsta sem þeir sjá af höfuðborgarsvæðinu. Það er bara alls ekki gott,“ segir íbúi á Völlunum.

Höf.: Diljá Valdimarsdóttir