Norðurlandamót í bridds hefst í dag að Laugarvatni. Ísland sendir lið í kvennaflokki og opnum flokki og verður spiluð sveitakeppni, tvöföld umferð. Mótinu lýkur á sunnudag.
Kvennalið Íslendinga skipa þær Anna Ívarsdóttir, Guðrún Óskarsdóttir, María Haraldsdóttir Bender og Harpa Fold Ingólfsdóttir. Fyrirliði er Gunnar Björn Helgason.
Í opnum flokki spila Aðalsteinn Jörgensen, Birkir Jón Jónsson, Magnús Magnússon og Sigurbjörn Haraldsson. Einar Guðjohnsen er fyrirliði. Matthías Imsland, framkvæmdastjóri Bridgesambands Íslands, segist bjartsýnn á gengi Íslendinga, einkum í opna flokknum.
„Þar tel ég raunhæft að vonast eftir gulli eða silfri,“ er haft eftir Matthíasi í fréttatilkynningu frá Bridgesambandinu. Segir hann landsliðin hafa æft vel fyrir mótið og að kvennaliðið gæti einnig náð mjög góðum árangri.