Upphaf Iða Marsibil Jónsdóttir frá Bríeti og Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri tóku til hendinni.
Upphaf Iða Marsibil Jónsdóttir frá Bríeti og Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri tóku til hendinni. — Ljósmynd/Jóhanna María Sigmundsdóttir
Fyrstu skóflustungur að tveggja herbergja parhúsi, sem Bríet – leigufélag lætur byggja, voru teknar nú fyrr í vikunni. Það gerðu Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalabyggðar og Iða Marsibil Jónsdóttir framkvæmdastjóri Bríetar

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Fyrstu skóflustungur að tveggja herbergja parhúsi, sem Bríet – leigufélag lætur byggja, voru teknar nú fyrr í vikunni. Það gerðu Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri Dalabyggðar og Iða Marsibil Jónsdóttir framkvæmdastjóri Bríetar. Þarna verða undir einu þaki tvær íbúðir, hvor þeirra um sig 63 m2, íbúðirnar samanstanda af alrými, tveimur svefnherbergjum, baðherbergi og forstofu. Vonir eru bundnar við að verkinu ljúki í júlí og íbúðirnar, sem eru í húsi við Borgarbraut, verði tilbúnar til afhendingar væntanlegum leigjendum fyrir lok sumars.

Bjarki Þorsteinsson segir það gríðarlega mikilvægt fyrir Dalabyggð að fá verkefnið í gang. „Húsnæðismarkaðurinn er þannig að það vantar bæði eignir til kaups og leigu og ef skoðaður er fasteignavefur á miðlunum þá er ekkert hús eða íbúð til sölu í Búðardal núna. Okkur er að fjölga, íbúatalan stendur í 679 núna 1. júní sl. og hefur verið fjölgun það sem af er ári. Fólk hefur áhuga á Dölunum og því sem er að gerast hér. Þeim áhuga er svarað til að mynda með verkefni sem þessu,“ segir sveitarstjórinn.

Sveitarfélagið Dalabyggð eignaðist 1,54% í formi hlutafjár í leigufélaginu Bríet 2023 þegar leigufélagið eignaðist eignir sveitarfélagsins við Stekkjarhvamm og Gunnarsbraut. Bríet býður fjölbreytta húsnæðiskosti úti um allt land og telur eignasafn félagsins um 500 fasteignir sem eru í 45 sveitarfélögum hringinn um landið.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson