[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Staða Víðis Reynissonar, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns allsherjar- og menntamálanefndar, vegna afskipta hans af máli kólumbísks pilts, sem sótt hefur um ríkisborgararétt til Alþingis, skýrðist lítt í gær við umræður á Alþingi

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Staða Víðis Reynissonar, þingmanns Samfylkingarinnar og formanns allsherjar- og menntamálanefndar, vegna afskipta hans af máli kólumbísks pilts, sem sótt hefur um ríkisborgararétt til Alþingis, skýrðist lítt í gær við umræður á Alþingi.

Víðir hefur verið sakaður um að rjúfa trúnað með frumkvæði sínu í málinu og einnig um að fara fram í umboðsleysi með því að fullyrða við embættismenn að Alþingi væri við það að veita piltinum ríkisborgararétt og því væri rétt að fresta brottvísun piltsins.

Frumkvæði Víðis

Fram hefur komið að Víðir gerði forstjóra Útlendingastofnunar, Kristínu Völundardóttur, og Sigríði Björk Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra erindi til að koma í veg fyrir brottvísun Oscars, en hann fullyrti við þær að „yfirgnæfandi líkur“ væru á að hann fengi íslenskan ríkisborgararétt.

Víðir átti frumkvæði að þessum samskiptum, en í tölvupósti til ríkislögreglustjóra á miðvikudag í síðustu viku upplýsti hann að umsókn piltsins um ríkisborgararétt væri til umfjöllunar hjá sérstakri undirnefnd allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem hún yrði skoðuð eins og ríflega 200 umsóknir aðrar, en niðurstöðu væri ekki að vænta fyrr en undir þinglok eftir miðjan júní.

Hann átti í framhaldinu símtal við ríkislögreglustjóra, sem hann þekkir vel úr fyrra starfi sem yfirlögregluþjónn hjá embættinu. Á föstudag töluðu þau aftur saman og féllst Víðir á tillögu Sigríðar Bjarkar um að hún áframsendi póstinn til viðeigandi stjórnvalds, forstjóra Útlendingastofnunar.

Kristín taldi þessar upplýsingar hins vegar ekki duga. Án þess að vita meira um stöðu umsóknar hans væri henni ekki fært að fresta brottvísun hans án þess að fresta um leið framkvæmd í 18 öðrum hliðstæðum málum. Fengi Útlendingastofnun hins vegar upplýsingar um að Alþingi ætlaði að veita drengnum ríkisborgararétt væri annað upp á teningnum.

Við því brást Víðir með því að segja „yfirgnæfandi líkur“ á því að pilturinn fengi ríkisborgararétt, þótt endanleg ákvörðun hefði ekki verið tekin og málsmeðferð á Alþingi geti tekið tímann sinn. Kristín óskaði þá staðfestingar á því að þetta ætti ekki við um hina 18.

„Það er rétt skilið,“ svaraði Víðir að bragði.

Hart deilt á þingi

Ekki er auðvelt að átta sig á því hver afstaða manna er í allsherjar- og menntamálanefnd vegna málsins, enda trúnaður um störf nefndarinnar. Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins situr í nefndinni og er auk þess fyrrverandi dómsmálaráðherra og þekkir vel til þessara mála. Hún tók þetta mál upp í óundirbúnum fyrirspurnum í gær og sagði Víði hafa lekið trúnaðarupplýsingum úr nefndinni til Útlendingastofnunar með það skýra markmið að hafa áhrif á ákvörðun hennar.

„Þetta gerði hann án samráðs við nefndina og án þess að fyrir lægi samþykkt Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar.“

Hún spurði Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra hvernig ríkisstofnanir gætu sinnt lögbundnu hlutverki sínu ef þær þyrftu að bregðast við ólögmætum gagnalekum þingmanna og jafnframt hvað Kristrúnu þætti um að þingmaður tæki einhliða ákvörðun um að hafa áhrif á framkvæmd réttmætrar stjórnvaldsákvörðunar.

Kristrún svaraði því ekki beint, en þótti orð Guðrúnar af stærri gerðinni. Víðir hefði ekki farið fram á neitt, heldur aðeins upplýst viðkomandi stofnun og embætti, sem síðan hefðu tekið sjálfstæða ákvörðun í málinu.

Guðrún andæfði þessu, sagði bersýnilegt að Víðir hefði upplýst ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun – án samráðs eða samþykkis nefndarinnar – einvörðungu í því skyni að hafa áhrif á feril máls hjá sjálfstæðri stofnun. Í þokkabót hefði hann talað opinberlega eins og hann hefði vald til þess að veita ríkisborgararétt. Svo væri ekki.

„Ber meirihlutinn enga virðingu fyrir Alþingi? Ef þingmenn fá að ákveða fyrir fram niðurstöður í viðkvæmum málum, af hverju ættu aðrir þá yfirhöfuð að treysta því ferli sem hér er?“

Sáttin úr sögunni

Engum blöðum virðist um það að fletta að Víði varð verulega á með afskiptum sínum. Jafnvel svo að hann hafi brotið ákvæði laga og reglna um trúnað og þagnarskyldu, þótt engum detti í hug að hann sé á leið í tuktið.

Allsherjar- og menntamálanefnd gerir sem fyrr segir tillögu til Alþingis um veitingu ríkisborgararéttar, en það gerir hún eftir að þriggja manna óformleg undirnefnd fer í gegnum umsóknir í trúnaði og fær til þess öll tiltæk gögn, oft viðkvæm. Til þessa hefur verið reynt að gæta þess að samstaða ríki í báðum nefndum um tillögur og hefðin raunar sú að þingið samþykkir þær samhljóma, menn sitja frekar hjá en að greiða atkvæði gegn tillögu nefndarinnar.

Þarna virðist hins vegar trúnaður við bæði nefndina og undirnefndina hafa verið rofinn. Einhver í undirnefndinni virðist hafa upplýst formanninn og hann svo tekið ákvörðun um að deila þeirri vitneskju áfram án samráðs við nefndina.

Við bætist svo að hann fer langt fram úr umboði sínu með því að gefa sterklega til kynna við ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun að hann geti sagt til um það hvernig mál tiltekinna einstaklinga fari í meðförum bæði undirnefndar og allsherjar- og menntamálanefndar. Það er bæði óábyrgt og óskynsamlegt hjá formanni nefndar. Fullyrðingar um hvernig málum lykti svo hjá þinginu eru svo ekki varlegri.

Þar með er ekki sagt að hann hafi gerst brotlegur við lög og reglur. Nefndin starfar iðulega náið með þessum stjórnvöldum tveimur og þar á milli fara trúnaðarupplýsingar af ýmsu tagi.

Hins vegar kann það að vera óviðeigandi og ámælisvert af Víði að upplýsa þessar stofnanir um það sem hann telur líklega niðurstöðu í tilteknum málum – áður en mál hafa fengið viðeigandi umræðu og umfjöllun á réttum vettvangi – í þeim nefndum sem um málin eiga að fjalla.

Þar hefur Víðir farið í bága við allar viðteknar venjur, hefðir og verklagsreglur í sambandi við afgreiðslu þingsins á þessum viðkvæmu málum og sú breytni kann að setja þá brothættu sátt, sem þar hefur þó ríkt, í uppnám.

Tvívegis synjað

Oscar Bocanegra er 17 ára piltur, sem sótti um hæli hér ásamt föður sínum og systur árið 2022. Því var synjað og þau send til Kólumbíu í október 2024, en íslensk hjón sóttu hann aftur til Kólumbíu. Nýrri hælisbeiðni hans nú í febrúar var einnig hafnað og kærunefnd hafnaði efnislegri meðferð, svo til stóð að hann færi úr landi í upphafi júní.

Höf.: Andrés Magnússon