Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Miklar breytingar eru fyrirhugaðar við Hótel Glym í Hvalfirði nái áform eigenda fram að ganga. Fyrirhugað er að reisa þar fjölda smáhýsa, hús fyrir starfsmenn og viðbyggingu við hótelbygginguna sjálfa auk þess sem fjölga á bílastæðum og göngustígum.
Þetta kemur fram í auglýsingu um breytt deiliskipulag fyrir Hótel Glym sem nú er til kynningar í skipulagsgátt.
Ekki hefur verið hótelrekstur á þessum stað síðustu misseri en í ágúst árið 2023 var kynnt að Vinnumálastofnun hefði tekið Hótel Glym á leigu í allt að 24 mánuði til að hýsa allt að 80 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Nú virðist stefnt að því að blása til sóknar í hótelrekstrinum.
„Markmið breytingarinnar er aukin uppbygging á svæðinu sem áfangastað þar sem gestir geta notið útiveru og fallegs útsýnis yfir Hvalfjörð,“ segir í auglýsingunni.
Þar kemur jafnframt fram að skilgreindir verða 17 nýir byggingarreitir fyrir smáhýsi. Þau verði svokölluð norðurljósahús með útsýni yfir Hvalfjörð. Í kringum smáhýsin verða lagðir nýir göngustígar.
Hvert smáhýsi á að rúma 2-3 gesti og hámarksstærð hvers smáhýsis verður 25 fermetrar.
Viðbygging hótelsins getur orðið allt að þúsund fermetrar að stærð með tengigangi við núverandi hótelbyggingu á 1-2 hæðum. Í henni verða 30 hótelherbergi, 18 fermetrar hvert. Jafnframt er gert ráð fyrir spa-aðstöðu þar.
34 ný bílastæði við hótelið
Starfsmannahús fyrir tólf einstaklinga gæti orðið allt að 250 fermetrar. Þá verður bætt við 34 nýjum bílastæðum ofan við Hótel Glym nái þessi áform fram að ganga.
„Viðbygging við hótel verður tengd við núverandi lagnir að hóteli. Kalt vatn er fengið úr vatnsbóli sem er um 500 metra norðaustur af hóteli. Vatnsbólið verður stækkað eftir þörfum. Hitaveita liggur meðfram Skólasetursvegi og verður viðbygging og smáhýsi tengt við þá lögn,“ segir í auglýsingunni. Þar kemur einnig fram að nýjar rotþrær verði settar upp við smáhýsi og viðbyggingu, auk starfsmannahúss. „Ein rotþró fyrir tvö til þrjú smáhýsi. Staðsetning skal taka mið af staðsetningu húsa og aðstæðum við reitina,“ segir þar enn fremur.