Þorgrímur Sigmundsson
Þorgrímur Sigmundsson
Málið er eins pólitískt og hugsast getur, ekki bara landsbyggðarpólitískt heldur einnig pólitískt fyrir Ísland allt og heim alþjóðaviðskipta.

Þorgrímur Sigmundsson

Blikur eru á lofti í atvinnumálum Íslendinga þegar svo gæti farið að kísilverinu á Bakka verði lokað.

Málið er stærra en svo að það snerti bara Norðurþing eða Norðausturland. Ætlum við að standa með íslenskri framleiðslu eða ætlum við að leyfa félagslegum undirboðum og niðurgreiðslum frá Kína að yfirtaka heiminn?

Ég geri mér fulla grein fyrir því að menn hafa misjafnar skoðanir á stóriðju en sú vara sem framleidd er á Bakka verður framleidd hér eða annars staðar. Spurningin er bara hvort við viljum nýta hreina íslenska orku til að framleiða hana eða hvort varan verður framleidd með kínverskum eða rússneskum kolum með tilheyrandi mengun jarðar. Kínverjar eru búnir að koma sér í þá stöðu, m.a. með félagslegum undirboðum, að ráða nærri 85% af markaðnum sem eitt og sér ætti að hringja viðvörunarbjöllum.

Staðan er grafalvarleg og ef við setjum þetta í stærra samhengi, þá væri eins og 4.200 manns í Reykjavík misstu vinnuna yrði viðlíka vinnustað lokað í höfuðborginni. Að vísu ekki allir í einu en meirihlutinn.

Sé það virkilega til skoðunar í Evrópu að hækka verulega tolla á þessa niðurgreiddu kínversku vöru þá trúi ég ekki öðru en að ríkisstjórnin muni tryggja íslenskan iðnað með sama hætti eða öðrum sem veitir sömu vernd.

Aðgerðir vegna félagslegra undirboða þola enga bið og við getum ekki talað um slík undirboð hér heima en leyft svo öðrum að stunda þau með augljósum afleiðingum fyrir íslenskt atvinnulíf.

Þótt ég hafi haft hófstilltar væntingar til byggðastefnu núverandi ríkisstjórnar, neita ég að trúa því fyrr en ég tek á því að menn átti sig ekki á alvarleika þessarar stöðu fyrir landið í heild og grípi þarna inn í til að tryggja innlenda iðnaðarframleiðslu.

Málið er eins pólitískt og hugsast getur, ekki bara landsbyggðarpólitískt heldur einnig pólitískt fyrir Ísland allt og heim alþjóðaviðskipta. Þess vegna neita ég að trúa því að núverandi ríkisstjórn muni ekki stíga þarna inn með myndarlegum hætti.

Ég skora á ríkisstjórnina að bregðast við þessari stöðu t.d. með þeim hætti að veita tímabundið skjól með tollum.

Höfundur er alþingismaður Miðflokksins fyrir Norðausturkjördæmi.

Höf.: Þorgrímur Sigmundsson