Norður
♠ 10854
♥ 762
♦ 732
♣ G104
Vestur
♠ 632
♥ 4
♦ ÁKG10964
♣ 96
Austur
♠ G9
♥ D10953
♦ D
♣ ÁKD73
Suður
♠ ÁKD7
♥ ÁKG8
♦ 85
♣ 853
Suður spilar 1G doblað.
Spilið að ofan var eitt af þeim umtöluðustu á Norðurlandamótinu á Laugarvatni. Algengt upphaf sagna var að austur opnaði á 1♥ og suður sagði 1G. Nokkrir vesturspilarar dobluðu til sektar, þar á meðal Nicolai Heiberg-Evenstad í leik Noregs og Íslands.
Svona dobl eru hættuleg því ef ♦D gefur sig ekki er vesturhöndin lítils virði. En það má segja að Heiberg-Evenstad hafi hitt á óskastund því lokasamningurinn varð 1G doblað, ♦D kom í ásinn í útspilinu, vestur tók fyrstu sjö slagina á tígul og austur næstu fimm á lauf. Spilið endaði því 6 niður, 1.700 til Noregs. Við hitt borðið ákvað Birkir Jón Jónsson í vestur að passa eftir 1G og spilaði að lokum 2♦ sem unnust með fjórum yfirslögum.
Á spjalli bridsspilara á Facebook voru fjörugar umræður um hvort NS hefðu getað flúið í 2♠ og sýndist sitt hverjum. Lesendur geta velt því fyrir sér.