Hlésgata 1 séð úr suðri.
Hlésgata 1 séð úr suðri. — Myndir/M3 fasteignaþróun
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Borgarfulltrúinn Kjartan Magnússon birtir grein um fyrirhugaða uppbyggingu í Vesturbugt og notar myndir úr röngu deiliskipulagi sem ekki er í gildi.

Örn Valdimar Kjartansson

Síðastliðinn fimmtudag birtist grein eftir borgarfulltrúann Kjartan Magnússon þar sem hann fjallar um fyrirhugaða uppbyggingu á Vesturbugtarsvæðinu undir nafninu „Verktakaveisla í Vesturbugt“. Þar talar hann um „háreista ofurþéttingu“ og birtir síðan myndir máli sínu til stuðnings af röngu deiliskipulagi sem ekki er í gildi. Núverandi deiliskipulag sem er frá 2024 sýnir í raun allt annað. Ekki er um háreista byggð að ræða því meginhlutinn er 3-4 hæðir og einungis á einu horni er farið í 5 hæðir, neðst við Mýrargötu 27 sem er 6-7 hæða bygging.

Einnig er nýja deiliskipulagið með mun stærri inngörðum en það sem Kjartan kýs að birta með grein sinni. Orðið „ofurþétting“ á heldur ekki við um Vesturbugtina, þar sem um er að ræða stök hús með sundum á milli sem mynda eina heild en ekki óslitna húsalengju. Síðan má ekki horfa fram hjá því að uppbyggingin er í halla frá Mýrargötu að höfninni, sem mun gera byggingar lágstemmdari en ella. Meðfylgjandi myndir sýna hvernig uppbyggingin á stærri reitnum Hlésgötu 1 mun koma út í umhverfinu (sýnir hæðir og uppbrot húsa en ekki endanlegt útlit) og er ekki annað hægt að segja en að þessi byggð muni falla vel að því umhverfi sem er í kring, sér í lagi byggingum sem þegar er búið að byggja beggja megin við. Einnig munu þessi hús ekki skyggja á sjónarásinn frá gamla Vesturbænum. Sund á milli húsa tryggir síðan aðgengi allra að gönguleiðum að höfninni sem og almenningsgarðinum sem gerður verður í inngarði beggja reitanna.

Kjartan gefur einnig í skyn að „verktakaveislan“ sé sú að fyrst hafi verið innt af hendi greiðsla fyrir reitinn og síðan farið í að fá aukið byggingarmagn til að réttlæta greiðsluna. Þetta er með öllu rangt og reyndur borgarfulltrúi ætti að vita betur. Byggingarmagn liggur fyrir þegar Reykjavíkurborg selur byggingarsvæðið með nýsamþykktu deiliskipulagi. Engar breytingar hafa verið gerðar eða eru fyrirhugaðar á því deiliskipulagi eða byggingarmagni.

Hver er tilgangurinn með svona rangfærslum og röngum myndbirtingum um uppbyggingarsvæði í miðborginni sem Reykjavíkurborg er búið að selja og við sem kaupendur erum að hanna og útfæra til að komast af stað? Er borgarpólitíkin þannig að það að fá athygli fjölmiðla og almennings með svona uppslætti á fyrirsögnum og röngum myndbirtingum sé mikilvægara en t.d. að vinna að því að auka gæði svæða fyrir borgarbúa með því t.d. að setja grænt leiksvæði í anda hafnarinnar þar sem áður var gert fyrir útisvæði leikskóla, styðja við jákvæða uppbyggingu sjávartengdrar starfsemi við hafnarkantinn og betri útfærslu á svæðinu milli Slippsins og íbúðarbyggðarinnar sem rís?

Við sem stöndum að uppbyggingu á Vesturbugt, sem við kjósum að kalla Vesturhöfn, höfum mikinn metnað til að gera framúrskarandi hafnarbyggð. Hönnuðir hafa heimsótt svipuð samsvarandi svæði í Kaupmannahöfn, Ósló og Helsinki til að sjá með hvaða hætti er best að útfæra og hanna slíka byggð. Stöndum saman í að gera Vesturbugtarsvæðið að góðu íbúðarsvæði og svæðið þar í kring að sameiginlegu útisvæði allra borgarbúa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Vesturbugtar.

Höf.: Örn Valdimar Kjartansson