30 ára Særós ólst upp á Eskifirði þar til hún var 11 ára en þá flutti fjölskyldan í Kópavog. Eftir grunnskólann fór Særós í Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2015. Hún er þekkt í golfheiminum og spilaði fyrir Golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar og náði góðum árangri.
„Eftir stúdentsprófið flutti ég til Bandaríkjanna og fór í háskólann í Boston að læra viðskiptafræði.“ Hún fékk golfstyrk og spilaði með golfliði háskólans. Hún segir að það hafi verið mjög góð reynsla að læra í Boston en mikið að gera. „Við vorum að æfa golf bæði fyrir og eftir skólann og ferðuðumst til allavega 15 ríkja á golfmót á meðan ég var í náminu.“ Hún eignaðist marga vini í háskólanum, og ekki síst í golfinu. „Núna í haust er ég að fara í tvö brúðkaup í Bandaríkjunum hjá tveimur stelpum sem voru með mér í golfinu.“
Hún útskrifaðist með BSc próf í viðskiptafræði frá Boston háskóla 2020 og fór þaðan beint til Sviss í háskólann í St. Gallen í meistaranám í fjármálum. Hún segir að auk þess að University of St. Gallen sé þekktur háskóli þá hafi skíðabrekkur Alpanna kallað á hana. „Ég hef alltaf verið mikið á skíðum og ég sá fyrir mér að geta farið á skíði um helgar,” segir hún og bætir við að hún hafi náð að fara á mörg mismunandi skíðasvæði í Ölpunum meðan hún var í náminu.
Meðan Særós var í náminu var hún eina önn í Lissabon í Portúgal og heillaðist af landinu. „Það endaði með því að eftir námið í Sviss fór ég til Lissabon og var þar í sex mánuði og var í fjarvinnu.“
Særós útskrifaðist með meistaragráðu í fjármálum frá University of St. Gallen 2023 og kom heim og fór að vinna hjá Arev-verðbréfafyrirtæki í ráðgjöf í kaupum og sölu fyrirtækja, þar sem hún vinnur enn. Auk þess var hún að klára próf í verðbréfaviðskiptum.
Auk áhugans á golfi og skíðum byrjaði Særós að hlaupa í fyrra. „Svo hef ég verið mikið að prjóna eftir að ég sá tiktok frá norskum stelpum sem voru að gera svo flottar peysur. Núna prjóna ég meðan ég horfi á sjónvarpið.“