Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Á Sæluviku Skagfirðinga er jafnan vísnakeppni Safnahúss Skagfirðinga og var Trump yrkisefnið í ár. Góðkunningi Vísnahornsins Helgi Einarsson varð hlutskarpastur með þessa vísu:
Ólíkinda- Trömp er -tól,
tæpast heill á geði,
með helst til lítinn höfuðstól
og heimskuna að veði.
Árni Bergmann biður um aðra hitabylgju – en með fyrirvara þó:
Blessuð sólin elskar allt…
Þá ást er best að þiggja í hófi.
Hún brennir sinu, brennir húð
og baðar skrokk í svitakófi.
Björn Ingólfsson var að taka til eftir sig á Bókasafninu, sem hann hefur annast í 40 ár, og fann þar miða í skúffu frá 20. apríl 2013. „Þann dag var verið að skipta um síma í skólanum og á borði mínu voru tveir símar, sá gamli og sá nýi. Sýnist sem ekki hafi alltaf verið mikil aðsókn að Bókasafninu.“ Á miðanum stóð:
Við það löngum legg ég mig
í líma
í einsemdinni að hanga hér
og híma.
Þá gefur hjálp við gagnsleysið
að glíma
að geta rætt við sjálfan sig
í síma.
Teresa Dröfn Freysdóttir fann þennan fína sauðalegg á ferðalagi um Snæfellsnes. „Þá var ekki annað í stöðunni en að hnoða saman Beinakerlingavísu og koma henni fyrir í leggnum og svo í vörðu. Reyndar brugðum við út af vana og ortum vísuna í orðastað Bárðar Snæfellsáss þar sem hann reynir að tæla til sín beinakerlinguna.“ Og vísan hljóðar svo:
Kalt er karli einum
kemur engin snótin
bóls til Bárðar í leynum
blíðu að veita hótin.
Það má alltaf læra af mistökunum, en stundum er einfaldlega of langt gengið, eins og í vísu Þorgeirs Magnússonar:
Skurðlæknirinn sem skar hann
Gvönd
skeyttonum vitlaust saman,
víxlaði fæti og hægri hönd
og hælana setti að framan.