Sjómannslífið Elías á strandveiðum síðasta sumar á Glófaxa VE 300.
Sjómannslífið Elías á strandveiðum síðasta sumar á Glófaxa VE 300.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Elías Pétursson fæddist 13. júní 1965 á Þórshöfn á Langanesi og bjó fyrstu mánuðina að Heiðahöfn á Langanesi. Þaðan flutti hann með foreldrum sínum til Reykjavíkur en þegar hann var fimm ára flutti fjölskyldan upp á Kjalarnes þegar faðir hans réð sig sem bústjóra á minkabúi

Elías Pétursson fæddist 13. júní 1965 á Þórshöfn á Langanesi og bjó fyrstu mánuðina að Heiðahöfn á Langanesi. Þaðan flutti hann með foreldrum sínum til Reykjavíkur en þegar hann var fimm ára flutti fjölskyldan upp á Kjalarnes þegar faðir hans réð sig sem bústjóra á minkabúi. Elías gekk í Klébergsskóla og gagnfræðaskóla Mosfellsbæjar. Elías var í sveit í Grímsnesi og í Landeyjum. „Svo var ég á sjó með afa mínum í Vestmannaeyjum og fór fyrst með honum sjö ára gamall.“

Fermingarárið réð hann sig á Gjafara VE 600 í sumarsíld og var líka á humarbátnum Ófeigi 3 þegar hann var 15 ára. „Það sem stendur upp úr eru mennirnir sem voru á þessum misgömlu vertíðarbátum. Því eitt áttu þeir allir sameiginlegt – það var hve góðir þeir voru við strákpjakkinn mig. Létu það misjafnlega í ljós en voru mér undantekningarlaust þolinmóðir, góðir og lögðu sig fram um að kenna mér réttu handtökin.“

Að loknu grunnskólaprófi réð Elías sig á skuttogarann Ingólf Arnarsson, fyrst á dekki, en síðar sem fjórða vélstjóra. Síðan fór hann á vetrarvertíð í Eyjum veturinn 1983-1984 en réð sig um vorið í hitaveituframkvæmdir á Kjalarnesi og vann sem vinnuvélstjóri hjá Dalverki sf., auk þess að vera vélstjóri á snurvoðarbát frá Reykjavík.

Elías keypti sér gröfu árið 1988 og rak síðan verktakafyrirtækið Jarðmótun ehf. og var þegar mest var með tíu starfsmenn yfir sumartímann. Í kjölfar efnahagshrunsins hallaði undan fæti í verkefnaframboði og ákvað Elías að hætta rekstri 2010. Hann skráði sig það ár í diplómanám í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, ásamt því að taka að sér ýmis ráðgjafarverkefni sem tengdust rekstri og jarðvinnuverkefnum. Sama ár bauð hann sig fram í bæjarstjórnarkosningum í Mosfellsbæ og varð m.a. formaður skipulagsnefndar Mosfellsbæjar, en hætti í því þegar stjórnmálavafstrið fór, að hans mati, að stangast á við vinnu hans í bænum enda vildi hann varast alla hagsmunaárekstra. Hann sagði af sér formennsku í skipulagsnefnd með ljóðaflutningi og flutti ljóðið Einn kemur þá annar fer eftir Davíð Stefánsson, enda stutt í húmorinn.

Árið 2014 bauðst Elíasi starf sveitarstjóra Langanesbyggðar sem hann sinnti næstu sex árin. Með starfinu sinnti hann ýmsum félagsstörfum, var m.a. formaður í Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga og í Stjórn SSNE. „Stærsta verkefnið var stórskipahöfnin í Finnafirði, en ég kom að allri samningagerð vegna verkefnisins og setti ásamt samstarfsfólki mínu kennitölu á það stóra verkefni.“ Elías segir að árin í Langanesbyggð hafi verið ákaflega lærdómsrík og krefjandi og að hann sé þakklátur fyrir þann tíma og allt það góða fólk sem hann kynntist þar.

Árið 2020 var Elías fenginn til að taka að sér stöðu bæjarstjóra í Fjallabyggð og var þar í tvö ár en eftir kosningar 2022 ákvað hann að óska ekki eftir endurráðningu. Hann fór að vinna hjá Wise sem ráðgjafi. „Það var mjög gaman að vinna að framþróun tækniumhverfis sveitarfélaga, enda hafði það verið eitt af mínum helstu áhugamálum sem sveitar- og bæjarstjóri.“

Sumarið 2023 ákvað Elías að róa á önnur mið þegar honum var boðin framkvæmdastjórastaða hjá Vörubílastöðinni Þrótti, þar sem hann vinnur enn. Sama sumar keypti hann sér strandveiðibátinn Glófaxa VE 300 eftir að hafa aflað sér réttinda til að stjórna skipum allt að 15 m að lengd og hefur stundað strandveiðar meðfram vinnu undanfarin tvö sumur. „Draumurinn um að eiga bát hafði lengi fylgt mér og gaman að láta þann draum rætast.“

Elías fylgist grannt með þjóðmálaumræðu og þá sérstaklega því sem lýtur að opinberum rekstri. „Ég hef alltaf haft áhuga á pólitík og þróun samfélagsins,“ segir hann og bætir við að hann hafi mikið farið í vetrarhálendisferðir, bæði á jeppum og vélsleðum. Þá hafi hann alltaf lesið mikið, ekki síst ljóð í seinni tíð. „Stóra áhugamál mitt þessa dagana er samt báturinn minn,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið svo lánsamur í lífinu að hann hafi alltaf haft mikinn áhuga á þeim störfum sem hann hefur sinnt á hverjum tíma. „Ég hef oftar en ekki eytt stærstum hluta frítíma míns í að skilja sem flesta anga vinnu minnar og skilin á milli vinnu og áhugamála hafa því oft verið frekar óskýr,“ segir hann og greinilegt er að hann sökkvir sér af öllum krafti í það sem hann tekur sér fyrir hendur.

Fjölskylda

Sambýliskona Elíasar er Guðlaug María Sigurðardóttir, yfirljósmóðir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, f. 11.11. 1965. Foreldrar hennar eru hjónin Sigurður Hreiðar Hreiðarsson, fv. blaðamaður og ritstjóri, f. 28.3. 1938, og Álfheiður Guðlaugsdóttir félagsráðgjafi, f. 28.11. 1940, d. 18.12. 2020. Áður var Elías kvæntur Valborgu Önnu Ólafsdóttur skrifstofustjóra, f. 1965.

Börn Elíasar eru: 1) Atli Már, f. 7.4. 1985. 2) Ásgeir, f. 2.2. 1991, flugvirki, maki Karen Anna Sævarsdóttir mannauðsstjóri og þau eiga börnin Elínborgu, f. 2020, og Arnór, f. 2023. 3) Jóhann Arnór, f. 12.7. 1997, nemi í matvæla- og næringarfræði. 4) Elías Leví, f. 23.11. 1999, rafvirki, maki Regína Pálsdóttir og þau eiga dótturina Bryndísi Önnu, f. 2023. Börn Guðlaugar Maríu eru: 1) Eik Skorradóttir félagsráðgjafi, f. 10.2. 1987, gift Martin Friis húsasmíðameistara og þau eiga börnin Sögu, f. 2014, og Björk, f. 2017. 2) Þöll Skúladóttir, nemi og landvörður, f. 12.7. 2000.

Systkini Elíasar eru: 1) Jóhanna Soffía Hansen, f. 23.7. 1966, þjónustustjóri hjá HS Veitum í Reykjanesbæ. 2) Lúðvík Pétursson, f. 20.2. 1971, d. 12.4. 1971. 3) Svava Þóra Bell, f. 26.3. 1972, bókari í Dunfermlane, Skotlandi. 4) Lúðvík Pétursson, f. 22.8. 1973, d. 10.1. 2024, vinnuvélstjóri, lést þegar hann féll ofan í sprungu í Grindavík. 5) Sölvi Leví Pétursson, f. 17.11. 1974.

Foreldrar Elíasar eru Ásdís Hansen Lúðvíksdóttir matreiðslumaður, f. 15.10. 1944, og Pétur Leví Elíasson, sjómaður og verkamaður, f. 13.8. 1937.