Íslensk og frönsk stjórnvöld hafa undirritað viljayfirlýsingu um að efla enn frekar tvíhliða varnarsamstarf ríkjanna. Var yfirlýsingin undirrituð í utanríkisráðuneytinu við Austurhöfn í vikunni.
Skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og skrifstofustjóri málefna Evrópu, Norður-Ameríku og fjölþjóðasamstarfs hjá varnarmálaráðuneyti Frakklands undirrituðu viljayfirlýsinguna. Við það tilefni fór fram tvíhliða samráð ríkjanna um samstarf á sviði öryggis- og varnarmála, þar sem öryggisáskoranir á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum og aukið tvíhliða varnarsamstarf ríkjanna voru til umræðu, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Þá voru málefni Atlantshafsbandalagsins og komandi leiðtogafundur bandalagsins í Haag síðar í mánuðinum sömuleiðis til umræðu, sem og stuðningur við varnarbaráttu Úkraínumanna gegn Rússum.