
Tungutak
Gísli Sigurðsson
gislisi@hi.is
Eitt af mörgu gagnlegu sem póstmódernisminn kom fram með er hugmyndin um orðræðuna: um hvað er talað og hvernig, og ekki síður hver fái að tala og hver staða þeirra sé. Tveir af mestu hugsuðum síðustu aldar, Michel Foucault og Jacques Derrida, urðu þekktir fyrir umfjöllun sína um þetta hugtak. Eins og gengur hefur afstæði hlutanna, sem þeir vöktu athygli á, lent í ógöngum ofsarétttrúnaðar á báða bóga og er því iðulega í skotlínunni þegar tekist er á um hefðbundnar hugmyndir (sem eru ekki náttúrulögmál) og nýmæli hvers konar.
Að sjálfsögðu voru það mikilvæg sjónarmið og greiningar á opinberri orðræðu sem þeir Foucault og Derrida komu fram með – sjónarmið sem geta ennþá vakið okkur til umhugsunar þegar fólk og hópar í sterkri stöðu láta til sín heyra í þeim tilgangi að hafa áhrif; ákveða hvað skuli talað um og hvernig. Flest höfum við náð að tileinka okkur þá póstmódernísku hugmynd að það séu fleiri en ein og fleiri en tvær frásagnir af „sömu“ „atburðum“ – þótt það sé bara fyrir lengra komna í fræðunum að hugsa um hvað sé átt við með hinu „sama“ og hvort það séu ekki bara til sögur en engir atburðir.
Gott dæmi um valdahóp sem beitir stöðu sinni til að hasla orðræðunni völl má taka af því þegar Viðskiptaráð sendi á dögunum frá sér skýrsluna Svartir sauðir, glatað fé: uppsagnarvernd opinberra starfsmanna. Þar voru nokkrar frásagnir af kostnaði við að segja upp opinberum starfsmönnum sem ekki höfðu reynst starfi sínu vaxnir notaðar til að giska á að kostnaður þjóðfélagsins af uppsagnarvernd hjá hinu opinbera væri 30-50 milljarðar. Málið er síðan reifað eins og svartir sauðir séu mikið vandamál í opinberum rekstri. Ekki er ég í neinni stöðu til að hafa skoðun á því, enda hef ég ekki önnur gögn að styðjast við en mína eigin reynslu úr háskólaumhverfinu þar sem opinberir starfsmenn geta aldrei hætt í vinnunni – og kulnun vegna álags og ofursamviskusemi er meira vandamál en ímyndaðir svartir sauðir.
Með því að stilla málinu svona upp er Viðskiptaráð hins vegar að reyna að ná valdi á orðræðunni um atvinnulífið: að það felist sérstakur og kostnaðarsamur vandi í því að ekki sé hægt að reka og ráða fólk að vild hjá hinu opinbera. Ríkisstarfsmenn verða svörtu sauðirnir en um leið er látið hjá líða að nefna að allra hæstu reikningarnir sem þjóðfélagið hefur fengið frá atvinnustarfsemi í landinu hafa komið frá þeim sem starfa ekki hjá hinu opinbera: hrunbönkunum, þeim sem hafa stundað ólöglegt verðsamráð, skattsvikapúkunum og fúskurum í byggingariðnaði… Hjá þeim skaða sem svörtu sauðirnir í þessum „frjálsu“ geirum atvinnulífsins hafa valdið verður kostnaðurinn af atvinnuöryggi opinberra starfsmanna að smáaurum. Valdið á orðræðunni stýrir því hvor sýnin á „vandann“ verður ofan á í pólitíkinni – eins og póstmódernistarnir bentu okkur á.