Tel Avív Björgunarmaður ber særða stúlku á baki sínu út úr húsarústum í Ramat Gan, nærri borginni Tel Avív, eftir að eldflaugar Írans hæfðu íbúðarhús.
Tel Avív Björgunarmaður ber særða stúlku á baki sínu út úr húsarústum í Ramat Gan, nærri borginni Tel Avív, eftir að eldflaugar Írans hæfðu íbúðarhús. — AFP/Jack Guez
Íran hóf gagnárás á Ísrael í gærkvöldi og ómuðu loftvarnarflautur víða um borgir og bæi í Ísrael inn í nóttina. Ísrael gerði umfangsmikla árás á Íran í fyrrinótt og skaut á yfir 100 skotmörk. Náðu Ísraelar m.a

Sonja Sif Þórólfsdóttir

Stefán Gunnar Sveinsson

Íran hóf gagnárás á Ísrael í gærkvöldi og ómuðu loftvarnarflautur víða um borgir og bæi í Ísrael inn í nóttina.

Ísrael gerði umfangsmikla árás á Íran í fyrrinótt og skaut á yfir 100 skotmörk. Náðu Ísraelar m.a. að fella nokkra af helstu hershöfðingjum íranska hersins og byltingarvarðarins, en að auki felldu þeir að minnsta kosti sex vísindamenn sem tengdust kjarnorkuáætlunin landsins. Íranir líta á árás Ísraela sem stríðsyfirlýsingu og hófu gagnárás af miklum krafti. Fjöldi íbúðarhúsa í Tel Avív varð fyrir sprengjum og eru flestir hinna særðu almennir borgarar.

Um það leyti sem gagnárásin hófst hét Ayatollah Ali Khamenei æðstiklerk­ur Írans hefndum gegn Ísrael í myndbandsávarpi til þjóðarinnar. „Þið megið ekki halda að þeir ráðist á okk­ur og að þetta sé búið. Nei. Þeir byrjuðu þetta og hófu þetta stríð. Við mun­um ekki leyfa þeim að sleppa frá þess­um glæp sem þeir frömdu,“ sagði Khamenei.

Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels flutti sjónvarpsávarp á meðan sprengjum rigndi yfir landið og sagði að frekari árása frá Ísraelsher væri að vænta. Sagði hann að árásirnar myndu ekki beinast að almennum borgurum í Íran heldur stjórnvöldum. Loftvarnarkerfi Ísraelshers virtust koma að litlu haldi um tíma yfir Tel Avív og fleiri borgum, en herinn naut aðstoðar Bandaríkjahers. Höfðu Bandaríkjamenn þá þegar hafið flutninga á hergögnum til Ísraels til að aðstoða við varnir.

Bandaríkjastjórn tók fram að hún hefði ekki haft neitt með árásir Ísraels að gera en Donald Trump forseti Bandaríkjanna fundaði með þjóðaröryggisráðgjöfum sínum í gær. Þá var blásið til neyðarfundar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna vegna árásarinnar.

Albert Jónsson, sér­fræðing­ur í alþjóðamál­um og fyrr­ver­andi sendi­herra Íslands í Rússlandi, tel­ur árás­ir Ísra­ela á Íran síðasta sól­ar­hring­inn aðeins vera byrj­un­ina á til­raun þeirra til að eyðileggja kjarn­orku­áætlun Írana eða a.m.k. seinka henni veru­lega. Í samtali við mbl.is í gær sagði Albert að í augum Ísraela væri tækifæri til að ráðast inn í Íran núna, þar sem Íran væri mjög veikt ríki hernaðarlega.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir