Hitaveita Jóhanna Stella Jóhannsdóttir á Reykjum gangsetti holuna.
Hitaveita Jóhanna Stella Jóhannsdóttir á Reykjum gangsetti holuna. — Morgunblaðið/Jón Sigurðsson
Blönduós | Rarik tók í notkun í gær nýja heitavatnsvinnsluholu við Reyki í Húnabyggð, skammt frá Húnavöllum. Markar holan tímamót í uppbyggingu hitaveitu Rarik í Húnabyggð og Skagaströnd. Með áfanganum í gær lýkur umfangsmiklu verkefni sem hófst…

Blönduós | Rarik tók í notkun í gær nýja heitavatnsvinnsluholu við Reyki í Húnabyggð, skammt frá Húnavöllum. Markar holan tímamót í uppbyggingu hitaveitu Rarik í Húnabyggð og Skagaströnd.

Með áfanganum í gær lýkur umfangsmiklu verkefni sem hófst árið 2021 með það að markmiði að auka afkastagetu hitaveitunnar og tryggja nægjanlegt framboð á heitu vatni fyrir ört vaxandi eftirspurn á svæðinu, að því er segir í tilkynningu frá Rarik.

Hitaveitan að Reykjum þjónar nú öllu þéttbýli á Blönduósi og Skagaströnd auk dreifbýlis í Húnabyggð. Með tilkomu vinnsluholunnar er rekstraröryggi aukið og Rarik telur tryggt að veitan geti sinnt núverandi og framtíðareftirspurn á svæðinu.

Fimm holur boraðar

Borun hófst sem fyrr segir árið 2021, á fyrstu tilraunaholu er hlaut heitið RR-32. Um leið fór af stað rannsóknarvinna til að greina jarðhitakerfið á svæðinu betur. Árið 2023 var ráðist í framhaldsboranir og boraðar fimm 500 metra djúpar tilraunaholur, RR-33 til RR-37. Niðurstöður þeirra borana lögðu grunninn að ákvörðun um endanlega staðsetningu vinnsluholu.

Í kjölfarið hófst borun á RR-38 sem lauk veturinn 2024. Holan er alls 1.602 metra djúp og fóðruð niður á 430 metra dýpi. Við borun komu í ljós gjöfular sprungur á um 610 metra dýpi og minni sprungur á 1.020 metra dýpi. Hitastig í holunni mælist um 76°C, sem gerir hana vel hæfa til hitaveitunotkunar.

Í fyrra var ráðist í hönnun og smíði djúpdælubúnaðar sem framleiddur var í Skotlandi og var tilbúinn í maí sama ár. Samhliða fór fram hönnun og lagning nýrra láréttra stofnlagna sem lauk síðla árs 2024. Í desember var dælunni komið fyrir í vinnsluholunni og lokafrágangur á rafmagni og lögnum stóð yfir þar til í vor. Holan var prufugangsett í mars sl. og síðan hafa farið fram fínstillingar og prófanir.

Jóhanna Stella Jóhannsdóttir, húsfreyja á Reykjum, og Hilmar Frímannsson, starfsmaður Rarik á Blönduósi, gangsettu holuna í gær, að viðstöddum gestum.