Ofbeldi Skólaheilsugæslan mun sjá um framkvæmd skimunarinnar.
Ofbeldi Skólaheilsugæslan mun sjá um framkvæmd skimunarinnar. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Heilbrigðisráðuneytið undirbýr nú skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum landsins og móttöku barna sem beitt hafa verið ofbeldi á Landspítala. Verkefnið er hluti af stærra átaki stjórnvalda gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna

Heilbrigðisráðuneytið undirbýr nú skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum landsins og móttöku barna sem beitt hafa verið ofbeldi á Landspítala. Verkefnið er hluti af stærra átaki stjórnvalda gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna. Stefnt er að því að hefja skimun í grunnskólum í haust sem tilraunaverkefni og sér skólaheilsugæslan um framkvæmd hennar.

Jafnframt stendur til að stofna nýja miðstöð, Bryndísarhlíð, fyrir börn sem eru þolendur ofbeldis. Stjórnendur Minningarsjóðs Bryndísar Klöru hafa lýst vilja til að fjármagna húsnæði undir starfsemina þar sem veitt verður geðheilbrigðisþjónusta sambærileg þjónustu Bjarkarhlíðar fyrir fullorðna.

Viðbót við núverandi þjónustu

Þegar hafa safnast verulegir fjármunir í minningarsjóðinn, sem stofnaður var í kjölfar andláts Bryndísar Klöru Birgisdóttur eftir hnífstunguárás á Menningarnótt í fyrra. Nýverið hófst söfnunarátak til að styðja við geðheilbrigðisúrræði barna sem sætt hafa ofbeldi. Dóra Guðrún Guðmundsdóttir, frá embætti landlæknis, situr í stjórn sjóðsins og segir hún að lögð sé áhersla á að úrræðið verði viðbót við núverandi þjónustu.

Haft er eftir Ölmu D. Möller heilbrigðisráðherra í tilkynningu að unnið verði að skipulagningu og mótun þjónustunnar í Bryndísarhlíð í samstarfi við stofnanir, ráðuneyti og þjónustuveitendur. Miðstöðin verði rekin af hinu opinbera en með húsnæðisframlagi frá minningarsjóðnum. „Hugurinn, kjarkurinn og sá góði vilji sem að baki býr veit ég að mun verða öllum sem koma að verkefninu hvatning til að gera sitt allra besta,“ segir Alma.