Ahmedabad Hluti af braki farþegavélarinnar sést hér, en ítarleg leit að fórnarlömbum fer nú fram á svæðinu.
Ahmedabad Hluti af braki farþegavélarinnar sést hér, en ítarleg leit að fórnarlömbum fer nú fram á svæðinu. — AFP/Punit Paranjpe
Rannsóknarmenn fundu í gær flugrita farþegavélar indverska flugfélagsins Air India, sem hrapaði í Ahmedabad í fyrradag. Vitað er að flugmenn vélarinnar sendu út neyðarkall skömmu eftir flugtak, en ekki var ljóst hvers vegna í gær

Rannsóknarmenn fundu í gær flugrita farþegavélar indverska flugfélagsins Air India, sem hrapaði í Ahmedabad í fyrradag. Vitað er að flugmenn vélarinnar sendu út neyðarkall skömmu eftir flugtak, en ekki var ljóst hvers vegna í gær. Ram Mohan Naidu Kinjarapu flugmálaráðherra Indlands sagði að gögnin á flugritanum myndu aðstoða umtalsvert við rannsókn málsins.

Staðfest var í fyrrakvöld að 265 manns hefðu farist hið minnsta í flugslysinu, þar af var 241 um borð í vélinni og 24 á jörðu niðri þar sem hún hrapaði. Lögreglan í Ahmedabad varaði þó við því í gær að ekki væri hægt að útiloka að tala látinna myndi hækka eftir því sem rannsókn á braki vélarinnar vindur fram, en hún brotlenti m.a. á gistiheimili fyrir lækna og læknanema í borginni.

Amit Shah innanríkisráðherra Indlands sagði í gær að opinberar dánartölur yrðu ekki gefnar út fyrr en búið væri að DNA-greina þær líkamsleifar sem fundist hefðu.

Hélt að hann myndi farast líka

Einungis einn farþegi komst lífs af, og þykir það ganga kraftaverki næst. Farþeginn, Vishwash Kumar Ramesh, tjáði sig í gær við indverska ríkisfjölmiðilinn DD News og sagðist hafa verið handviss um að hann myndi sjálfur farast. „En þá opnaði ég augun og áttaði mig á því að ég var enn á lífi.“

Ramesh sagðist hafa séð bæði farþega og áhöfn vélarinnar láta lífið. „Allt gerðist fyrir framan mig og jafnvel ég gat ekki trúað því hvernig ég slapp á lífi úr þessu,“ sagði hann, en hann hlaut m.a. brunasár á vinstri hendi.

Hann sagði jafnframt að ekki hefði verið liðin mínúta frá flugtaki þegar svo virtist sem eitthvað hefði „orðið fast“. Sagðist hann hafa áttað sig á því að eitthvað hefði gerst og í kjölfarið kviknuðu hvít og græn ljós í farþegarými flugvélarinnar, sem var af Boeing 787-8 Dreamliner-gerð.

Indversk flugmálayfirvöld skipuðu í gær Air India að framkvæma viðhald á þeim Dreamliner-vélum félagsins sem búnar væru svonefndum GEnx-hreyflum eins og sú sem fórst, en óvíst er á þessu stigi hvort þörf sé á að kyrrsetja þær.