Stefán E. Stefánsson
ses@mbl.is
Í liðinni viku voru tíu ár liðin frá því að ríkisstjórn Íslands tilkynnti að samningar hefðu náðst við kröfuhafa föllnu viðskiptabankanna þriggja. Þeir höfðu leitað útgöngu með eignir sínar allt frá því að fjármálalegt ofviðri skall á landinu í október 2008 en vegna aðgerða stjórnvalda voru þeir læstir inni í hagkerfinu og gátu sig hvergi hreyft.
Samkomulagið var tröllaukið í öllum skilningi. Skilaði sér í gríðarlegri eignaafhendingu til ríkissjóðs sem um leið gat gert upp stóran hluta skulda sinna, sem voru sem drápsklyfjar á þjóðarbúinu þá. En það sem meira máli skipti. Hagkerfið var laust úr viðjum hafta.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra á árunum 2013-2016 og leiddi vinnuna sem leiddi til hinnar farsælu niðurstöðu. Hann hafði raunar boðað útfærslu af þessu tagi í kosningabaráttunni 2013. Skelltu margir skollaeyrum við því og töldu hugmyndir hans um eignaafhendingu upp á 300-350 milljarða fjarstæðukenndar. Í viðtali í Spursmálum er rætt við Sigmund um þetta mál og meðal annars spilaðar glefsur úr viðtali við Sigmund á kosningavettvangi RÚV fyrrnefnt ár. Voru fjölmiðlamennirnir í raun móðgaðir yfir þeim hugmyndum sem Sigmundur bar á borð.
Tveimur árum síðar afhentu kröfuhafarnir ríkissjóði fjármuni sem voru nærri því tvöfalt meiri en það sem Sigmundur Davíð hafði sagt gerlegt að sækja til slitabúa bankanna í tilraun til þess að losa þjóðina úr höftum.
Í viðtalinu, sem aðgengilegt er á mbl.is og öllum helstu streymisveitum, rekur Sigmundur aðdragandann að losun hafta og útskýrir hversu erfitt það reyndist að fá stjórnkerfi Íslands um borð í þann björgunarleiðangur sem stóð fyrir dyrum. Mikið púður hafi farið í það hjá embættismönnum að útskýra fyrir honum og öðrum að ekki væri mögulegt að fara þá leið sem að lokum varð að veruleika.
Reyndu að villa honum sýn
Þá greinir Sigmundur Davíð frá því hvernig kröfuhafar, svokallaðir hrægammasjóðir, reyndu að hafa áhrif á hann, bæði með blíðuhótum og hótunum. Var það gert til þess að tryggja hagsmuni þeirra og að sögn hans sjálfs, en ekki íslenska þjóðarbúsins.
Rifjar hann upp að fulltrúar kröfuhafa hafi meðal annars elt hann til London og Norður-Dakóta þar sem hann sinnti opinberum erindagjörðum forsætisráðherra. Var honum boðið til funda á hótelherbergjum og í bjálkakofum fjarri mannabyggðum – en þáði ekki.
Þótt ekki hafi tekist að knésetja ríkisstjórnina í þessu risavaxna hagsmunamáli segir Sigmundur Davíð að þeir, sem sveið hvað mest sú niðurstaða, hafi hugað að hefndum. Það hafi svo birst í hinu svokallaða Wintris-máli sem blásið var upp árið 2016 í tengslum við þá staðreynd að fyrirtækið Wintris, sem skráð var í skattaskjóli, var í eigu Sigmundar Davíðs og konu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur.
Segir Sigmundur Davíð að hann hafi afhent Ríkissjónvarpinu gögn, tveimur vikum áður en að opinberri umfjöllun kom.
„Í tvær vikur sagði það ekki frá innihaldi málsins því það var að bíða eftir leyfi til þess að setja málið af stað með þeim hætti sem áformað hafði verið.“
Hvaða blaðamenn fengu gögnin?
„Þóra.“
Þóra Arnórsdóttir?
„Já. Og einhverjir aðrir sem voru að vinna að þessu á sínum tíma.“
Í viðtalinu er Sigmundur Davíð spurður að því hvort hann telji sig hafa notið sannmælis í kjölfar þessa gjörningaveðurs alls en hann hefur setið í stjórnarandstöðu allt frá því að hann vék úr embætti forsætisráðherra árið 2016.
Svar hans fellur vel að hinu þekkta máltæki að sjón er sögu ríkari.