Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Enn var rætt um bókun 35 á Alþingi þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi, en þar voru það þingmenn Miðflokksins einir, sem ræddu málið.
Framan af degi fóru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn einnig í ræðustólinn til að ræða fundarstörf forseta af ýmsu tilefni og stöku stjórnarliði var til svara.
Heimildir Morgunblaðsins herma að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafi ekki viljað leggjast í málþóf um bókun 35, þar sem það hafi verið stjórnarfrumvarp í síðustu ríkisstjórn, þótt vissulega hafi verið skiptar skoðanir um það í liði sjálfstæðismanna þá sem nú.
Þingstubbur í ágúst útilokaður
Mikill kurr varð í þingsalnum síðdegis, þegar Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins greindi frá því að Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins og formaður atvinnuveganefndar, hefði talað um að vel mætti kalla þing saman stuttlega í ágúst til þess að afgreiða þau mál, sem afgangi mættu nú.
Nokkuð var um það þvargað, þar til Þórunn Sveinbjarnardóttir forseti Alþingis skarst í leikinn og nánast útilokaði það.
„Það er ekki á starfsáætlun, það stendur ekki til, það er ekki neyðarástand í landinu, það er ekkert sem þarf að bregðast við sem kallar á þingfundi í ágúst. Vonum að það verði þannig og það þurfi ekki að grípa til örþrifaráða þegar þar að kemur.“
Fátt bendir hins vegar til þess að samkomulag um þinglok sé í nánd. Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingar kom raunar í pontu og upplýsti að þingflokksformenn hefðu ræðst talsvert við, stjórnarmeirihlutinn lagt fram tilboð og boltinn væri hjá minnihlutanum.
Orð hans hleyptu hins vegar illu blóði í stjórnarandstöðuna frekar en hitt og þingflokksformenn hennar töldu þau nánast trúnaðarrof.