Flóki Larsen
floki@mbl.is
„Mér finnst bókin vera persónuleg gjöf, því þú leggur svolítið af vinnu í að velja bókina. Það getur hver sem er farið í Ríkið, keypt rauðvínsflösku og skellt henni á borðið. Það verður bara að passa að hafa hana eitthvað yfir fimmþúsundkallinum,“ segir Eiríkur Ágúst Guðjónsson, bóksali í Bókinni fornbókaverslun á Klapparstíg.
Eiríkur segir það algengt að fólk komi í búðina í þeim erindagjörðum að velja bækur fyrir útskriftarefni, oft eftir því úr hvaða fagi það útskrifast. Háskólar útskrifa nemendur í dag.
Hann tekur fram nokkrar bækur sem dæmi. „Fyrir hagfræðinginn gefur maður kannski Auðfræði Arnljóts Ólafssonar. Það er fyrsta bókin sem er skrifuð um hagfræði af Íslendingi á íslensku, gefin út 1880,“ segir hann.
Spurður um góða gjöf fyrir guðfræðinginn nefnir hann Vídalínspostillu. „Það er helvítistrúin. Rosalegt magn af skömmum ef við liggjum ekki á hnjánum meira og minna alltaf.“
Frelsið eftir John Stuart Mill segir Eiríkur vera álitlega gjöf fyrir heimspekinga og frjálshyggjumenn t.d. og reiðir fram frumútgáfu ritsins. Fyrir lögfræðinginn segist hann mæla með gömlum íslenskum lögbókum eins og Jónsbók og Grágás. Bækur eftir Halldór Laxness segir hann svo henta hverjum sem er.
Ungt fólk les
Spurður um lestur ungmenna segir Eiríkur að hann sé hvergi nærri hættur. „Ungt fólk hefur alltaf komið hingað enda er hægt að fá hér bæði góðar og ódýrar bækur og gjafir, til hversdagsbrúks og spari.“
Ljóðabækur eftir „góðskáld, smáskáld og leirskáld“ segir hann vera vinsælar gjafir meðal ungs fólks. Hann dregur þó fram einn kost í framhaldinu sem kann að vera ungu fólki ókunnur.
Eiríkur segir þá bók ef til vill hentuga gjöf fyrir fólk sem er að hefja búskap. „Þá er gaman að gefa einhverjar sniðugar bækur. Og það er klassískt núna að gefa símaskrá, því hún er ekki gefin út lengur og varla til á heimilum. Þetta er sem sagt síðasta íslenska símaskráin sem var gefin út 2016. Hún er orðin alþjóðlegur söfnunargripur.“