Nefúðinn naloxone verður brátt aðgengilegur á öllum göngum í fangelsum Íslands. Ísland er fyrsta landið sem dreifir nefúðanum í öll fangelsi. Um er að ræða samstarfsverkefni Fangelsismálastofnunar, Matthildarsamtakanna og Afstöðu, félags fanga.
Naloxone er bráðalyf gegn ofskömmtun á ópíóíðum. Ef það er gefið tímanlega getur það bjargað mannslífum með því að snúa við öndunarbælingu og öðrum skaðlegum afleiðingum ofskömmtunar.
Fangelsismálastofnun hefur pantað naloxone-nefúða sem verða settir á alla ganga í fangelsum ásamt upplýsingabæklingi. Að auki fá fangaverðir þjálfun í skyndihjálp og notkun naloxone. Heilbrigðisráðuneytið greiðir kostnað við dreifingu naloxone á Íslandi. Lyfjatengd andlát hér á landi voru 56 árið 2023 og af þeim var 61% af völdum ópíóíða.