Heiðrún Lind Marteinsdóttir
Þær eru margar áskoranirnar sem íslenskur sjávarútvegur þarf að takast á við. Náttúran er duttlungafull, markaðir hverfulir og áhugasvið stjórnvalda frá einum tíma til annars eins og íslenskt sumar – alls konar og ófyrirsjáanlegt.
Þrátt fyrir að það sé ekkert gleðiefni að takast á um frumvarp sem boðar verulega og fyrirvaralausa hækkun á veiðigjaldi, þar sem enginn tími er gefinn til samráðs og samtals við hagaðila, rekur stundum gagnlegar áskoranir á fjörur okkar í sjávarútvegi.
Á ársfundi SFS í apríl skoraði atvinnuvegaráðherra á fyrirtæki í sjávarútvegi að „opna bækur sínar“ svo að staðreyna mætti að áhyggjur þeirra af ríflega tvöföldun veiðigjalds væru raunverulegar. Þótt ótrúlegt megi virðast hefur verið rík tilhneiging til algerrar afneitunar stjórnvalda á áhrifum svo mikillar skattahækkunar í einu vetfangi. Sú afneitun var færð í orð, án nokkurrar rannsóknar eða áhrifamats, í fyrirliggjandi frumvarpi um hækkun veiðigjaldsins.
Niðurstöður staðfesta ofurskattlagningu
Fyrirtæki í sjávarútvegi skoruðust ekki undan áskorun ráðherra. Þannig létu 26 fyrirtæki í fiskveiðum (alls 45 lögaðilar) allar rekstrarupplýsingar til Deloitte, sem vann greiningu á áhrifum boðaðrar hækkunar á rekstur allra þessara aðila, bæði sérstaklega og sameiginlega. Niðurstöður voru kynntar, að viðstöddum atvinnuvegaráðherra, á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins hinn 28. maí sl. og sendar til bæði ráðuneytis og atvinnuveganefndar Alþingis í kjölfarið.
Öllum þeim sem er annt um verðmætasköpun, heilbrigðan hagvöxt og almennt góð lífskjör um allt land þykja niðurstöðurnar að líkindum sláandi. Verði frumvarpið að lögum mun veiðigjaldið taka ríflega 41% af rekstrarafkomu þessara stærstu fyrirtækja, sé miðað við árið 2025, og beinar álögur ríkisins (veiðigjald, tekjuskattur og kolefnisgjald) munu vera ríflega 60% af afkomu þeirra. Arðsemi eigin fjár verður þá aðeins 3,5%.
Hér þarf að benda á að SFS telja aukinheldur að hækkanir á veiðigjaldi séu verulega vanmetnar í fyrirliggjandi frumvarpi. Miðað við útreikninga SFS verður veiðigjaldið tæplega 50% af rekstrarafkomu fyrirtækjanna og beinar álögur tæplega 67%, auk þess sem arðsemi eigin fjár verður þá 2,9%. Þá verður jafnframt að hafa í huga að veiðigjald er innheimt af afkomu fiskveiða, en í fyrrgreindum tölum er miðað við afkomu af allri starfsemi fyrirtækjanna. Væri einvörðungu horft til fiskveiða væri skattheimtan af afkomu botnfiskveiða hærri en 70% og skattheimtan hærri en afkoma í uppsjávarveiðum, sumsé vel yfir 100%.
Fyrrgreindar tölur byggja á heildaráhrifamati, en áhrifin voru einnig metin fyrir hvert og eitt fyrirtæki. Þar er staðfest að hækkunin getur orðið mjög ólík milli fyrirtækja. Í alvarlegustu tilvikunum mun ríkið taka alla afkomu hlutaðeigandi fyrirtækja.
Allt þetta hefur atvinnuvegaráðherra fengið afhent. Það væri áhugavert að heyra hver skilgreining ráðherra er á ofurskattlagningu ef þessi fyrirhugaða breyting er það ekki. Það má raunar leiða að því líkur að skattheimtan höggvi nærri því að teljast hrein eignaupptaka. Það mun vafalaust falla dómstólum í skaut að skera úr um það ef fram heldur sem horfir.
Hvað svo?
Nú hafa fyrrgreindar niðurstöður Deloitte legið fyrir um nokkurt skeið. Það sætir töluverðri furðu, sér í lagi vegna þess að atvinnuvegaráðherra hafði frumkvæði að því að hvetja til þess að áhrifamatið yrði unnið og birt, að sami ráðherra hafi með engu móti sýnt niðurstöðunum áhuga. Það má því velta fyrir sér af hverju ráðherrann hafði í frammi nefnda áskorun? Varða þessi neikvæðu áhrif ráðherrann engu? Ef svo er ekki má vafalaust með sanngirni álykta að verðmætasköpun, störf og hagsæld fólks og fyrirtækja varði ráðherra heldur engu. Það eru heldur dapurleg skilaboð.
Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.