Eiríkur Grímsson sendi þættinum góða kveðju. „Ég heyrði í morgun í fyrsta skipti orðið dugnaðarkvíði. Það er notað um þá sem finnst þeir alltaf þurfa að vera að gera eitthvað. Ég vil ekki láta verkin bíða, vinn því af krafti eins og sést

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Eiríkur Grímsson sendi þættinum góða kveðju. „Ég heyrði í morgun í fyrsta skipti orðið dugnaðarkvíði. Það er notað um þá sem finnst þeir alltaf þurfa að vera að gera eitthvað.

Ég vil ekki láta verkin bíða,

vinn því af krafti eins og sést.

Ég er með dálítinn dugnaðarkvíða,

sem drepur mig víst fyrir rest.“

Vísnagáta liðinnar viku barst sem endranær frá Páli Jónssyni í Hlíð á Langanesi:

Hún í gatið ganga á,

getur losnað skipi frá,

til að meiða tólið er,

og talin vera laus í mér.

Eins og fólk þekkir felst merking lausnarorðsins í hverri línu og vefst ekki fyrir Helga Einarssyni:

Á skrúfur brúka skrúfjárn má.

Skrúfa' er vélbátunum á.

Þumalskrúfan skelfdi menn.

Skrúfur losna víða enn.

Lausnarorðið er sem sagt skrúfa. Úlfar Guðmundsson velkist ekki í vafa um það:

Gengur skrúf´ í gatið senn.

Getur skrúfa losnað frá.

Þumalskrúfa meiðir menn.

Mikið skrúfa laus þér hjá.

Guðrún Bjarnadóttir kann svarið:

Gat, og skrúfan gekk í það.

Svo gæti, í hafi, skrúfan farið.

Þumalskrúfan þrengir að.

Í þér laus skrúfa? Hvert er svarið?

Svarið barst snemma og óttaðist hún að lausnin rataði ekki í blaðið:

Að senda leir á laugardegi

er lukt á kvíðastikunni,

ef honum reynist rutt úr vegi

með rími úr fyrri vikunni.

Eins og jafnan eru vísurnar ólíkar. Harpa á Hjarðarfelli:

Skrúfa skal í jaðar.

Skrúfa bátnum á.

Skrúfa þumal skaðar.

Skrúfa laus mér hjá.

Loks yrkir Helgi Jensson:

Skal í gatið skrúfu setja,

skrúfulaus ei dallur hreyfist,

skrúfur stundum fingur fletja,

fræknum lausa skrúfan leyfist.

Þá er það vísnagáta Páls fyrir næstu viku:

Riffilskyttan skaut í það,

skora margir vilja það,

á kindaeyra einnig það,

allir Finnar nota það.