Elínborg Una Einarsdóttir
elinborg@mbl.is
Skoðunarmenn reikninga Skáksambands Íslands telja tilefni til rannsóknar á rekstri og bókhaldi Skáksambandsins og leggja til að ársreikningur verði ekki samþykktur á aðalfundi sambandsins sem fram fer í dag.
Þetta kemur fram í greinargerð um ársreikning sambandsins sem skoðunarmennirnir, Jon Olav Fivelstad og Oddgeir Ágúst Ottesen, sendu frá sér í gær.
Í niðurstöðu greinargerðarinnar segir meðal annars: „Ljóst er að enn vantar marga reikninga og kvittanir í bókhald skáksambandsins. Mikið vantar einnig upp á fullnægjandi skýringar á útgjöldum í bókhaldinu.“
Þá kemur fram að bókhaldsvinnan virðist að mestu hafa hafist í byrjun þessa mánaðar en sem fyrr segir fer aðalfundurinn fram í dag.
„Á fyrsta fundi skoðunarmanna með gjaldkera og forseta kom í ljós að enn átti eftir að bóka fjölda reikninga, fyrir a.m.k. 10 m.kr.,“ segir í greinargerðinni. Loks er tekið fram að niðurstaða skoðunarmannanna byggist aðeins á skoðun bókhaldsgagna þar sem þeir hafa ekki enn, tveimur dögum fyrir aðalfund, fengið endurskoðaðan ársreikning og endurskoðunarbréf sambandsins.
Tvö í framboði
Gunnar Björnsson hefur verið forseti Skáksambandsins síðustu 16 ár en hann sækist ekki eftir endurkjöri.
Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Kristján Örn Elíasson hafa tilkynnt framboð sín til embættis forseta en hvort þeirra ber sigur úr býtum kemur í ljós á aðalfundinum.
Kristján Örn, markaðsfræðingur og alþjóðlegur skákdómari, hefur starfað innan skákhreyfingarinnar í hartnær 30 ár en hann leggur áherslu á að forseti sambandsins eigi ekki að starfa samhliða sem framkvæmdastjóri þess.
Jóhanna Björg hefur starfað innan hreyfingarinnar frá árinu 2018 en hún leggur áherslu á að auka fjölbreytni innan hreyfingarinnar og segist vilja tryggja traustan grunn fyrir komandi kynslóðir skákmanna og -kvenna.