Birkimelur 1 Fræðastofnanir á Melunum telja að lóðin tilheyri háskólasvæðinu. Í bakgrunni er Hótel Saga, sem verður miðstöð menntavísinda.
Birkimelur 1 Fræðastofnanir á Melunum telja að lóðin tilheyri háskólasvæðinu. Í bakgrunni er Hótel Saga, sem verður miðstöð menntavísinda. — Morgunblaðið/sisi
Stjórnendur fjögurra stofnana gagnrýna harðlega auglýsta tillögu um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Birkimels 1, þar sem áformað er að reisa 42 íbúða 4-5 hæða fjölbýlishús. Á lóðinni stendur bensínstöð Orkunnar en rekstri hennar verður hætt

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Stjórnendur fjögurra stofnana gagnrýna harðlega auglýsta tillögu um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Birkimels 1, þar sem áformað er að reisa 42 íbúða 4-5 hæða fjölbýlishús.

Á lóðinni stendur bensínstöð Orkunnar en rekstri hennar verður hætt. Er það í samræmi við samkomulag milli borgarinnar og olíufélaganna um fækkun bensínstöðva í borginni og uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á lóðunum.

Stjórnendur Háskóla Íslands, Landsbókasafns Íslands – háskólabókasafns, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Félagsstofnunar stúdenta sendu sameiginlega umsögn inn á Skipulagsgáttina, þar sem tillagan er í kynningu.

Fram kemur í umsögninni að síðustu ár hafi Háskóli Íslands, í samvinnu við erlenda sérfræðinga og Reykjavíkurborg og í samráði við ofangreindar samstarfsstofnanir, unnið að gerð metnaðarfullrar þróunaráætlunar fyrir háskólasvæðið vestan og austan Suðurgötu, ásamt tengingum við svæði Heilbrigðisvísindasviðs skólans og Landspítalans. Var þróunaráætlunin samþykkt í háskólaráði Háskóla Íslands og í borgarráði í desember 2024.

„Þess er skemmst að minnast að í nóvember 2023, þegar vinnan við þróunaráætlunina var langt komin, hélt þáverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Dagur B. Eggertsson, opinberan kynningarfund um fyrirhugaða uppbyggingu íbúðahúsnæðis í borginni, þar sem m.a. var tilkynnt að til stæði að sameina reitina á milli stofnana okkar til að byggja þar 350 íbúðir. Voru þessi áform undirstrikuð í bæklingi sem um sama leyti var borinn í hús á Reykjavíkursvæðinu og þar fullyrt ranglega að þetta væri í samræmi við þróunaráætlun Háskóla Íslands,“ segir í umsögninni.

Með bréfi forstöðumanna stofnana fræðasamfélagsins til Einars Þorsteinssonar, þáverandi borgarstjóra Reykjavíkur, dags. 4. júlí 2024, var lýst eindreginni andstöðu við þessi áform, enda væru þau sett fram án nokkurs samráðs við stofnanirnar, auk þess sem alla tíð hefði verið gengið út frá því að umrætt svæði væri helgað framtíðaruppbyggingu fyrir háskóla- og menningarstarfsemi.

Tillagan gangi of langt

Af þeirri tillögu sem nú er kynnt í skipulagsgátt mætti ætla að af hálfu Reykjavíkurborgar hafi, a.m.k. um sinn, verið fallið frá framangreindum áformum um stórfellda íbúðauppbyggingu á svæðinu á milli háskólastofnana vestan Suðurgötu og þess í stað nú einblínt á bensínstöðvarreitinn Birkimel 1 sem einkafyrirtækið Skel ehf. hefur umráðarétt yfir. Þrátt fyrir þetta telja stjórnendurnir að tillagan gangi allt of langt og feli í sér veruleg neikvæð áhrif á háskólasvæðið:

Af skýringarmyndum sem fylgi með tillögunni megi glöggt sjá að byggingin sé eins og aðskotahlutur sem sé í engu samhengi við umhverfi sitt og það einstaka skipulag sem einkenni svæðið.

Að áætla þrjú almenn bílastæði fyrir fjölbýlishús með 42 íbúðum sé fullkomlega óábyrgt og muni óhjákvæmilega hafa í för með sér að íbúar hússins muni leggja bílum sínum á bílastæðum annarra húsa í nágrenninu, ekki síst bílastæðum stofnananna.

„Eins og áður sagði hefur alla tíð verið talið óumdeilt að umrætt svæði á milli stofnana okkar sé helgunarreitur fyrir mennta- og menningarstarfsemi til allrar framtíðar. Með þeirri tillögu um breytingu á deiliskipulagi sem nú liggur fyrir er þeirri framtíðarsýn teflt í tvísýnu. Við leggjum því eindregið til að horfið verði frá því skipulagsslysi sem tillagan felur í sér,“ eru lokaorð umsagnarinnar.

Undir hana rita Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Guðrún Nordal, forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Örn Hrafnkelsson landsbókavörður og Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta.

Almenningur getur kynnt sér tillöguna á skpulagsgatt.is. Athugasemdafrestur er til 22. júlí næstkomandi.

Höf.: Sigtryggur Sigtryggsson