— AFP/Sepah News
Stjórnvöld í Íran vöruðu við því í gær að þau litu á loftárásir Ísraelshers í fyrrinótt sem stríðsyfirlýsingu á hendur sér. Ísraelsher gerði þá rúmlega 100 loftárásir á skotmörk í Íran, bæði í höfuðborginni Teheran og á nokkrum svæðum sem tengjast kjarnorkuáætlun klerkastjórnarinnar

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Stjórnvöld í Íran vöruðu við því í gær að þau litu á loftárásir Ísraelshers í fyrrinótt sem stríðsyfirlýsingu á hendur sér. Ísraelsher gerði þá rúmlega 100 loftárásir á skotmörk í Íran, bæði í höfuðborginni Teheran og á nokkrum svæðum sem tengjast kjarnorkuáætlun klerkastjórnarinnar.

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, sagði í fyrrinótt að árásirnar hefðu beinst að hjarta áætlunarinnar og að þeim yrði haldið áfram svo lengi sem þörf væri á.

Náðu Ísraelar m.a. að fella nokkra af helstu hershöfðingjum íranska hersins og íranska byltingarvarðarins, en að auki felldu þeir að minnsta kosti sex vísindamenn sem tengdust kjarnorkuáætluninni. Íranska kjarnorkustofnunin staðfesti svo í gær að bækistöð Írana í Natanz, þar sem þeir hafa auðgað úran, hefði orðið fyrir skemmdum í loftárásinni.

Ali Khameinei æðstiklerkur hótaði því um nóttina að Ísraelsríki myndi hljóta grimma refsingu fyrir árásina. „Með þessum glæp hefur síonistastjórnin tryggt sér bitur og sársaukafull örlög og hún mun örugglega hljóta þau,“ sagði Khamenei í yfirlýsingu sinni.

Einn helsti ráðgjafi Khameneis, Ali Shamkhani, féll í árásinni, en óstaðfestar fregnir um nóttina hermdu að Khamenei sjálfur hefði verið á skotmarkalista Ísraelshers, sem og Masoud Pezeshkian Íransforseti, en hann hét því að Íran myndi láta Ísrael sjá eftir árásinni.

Yfirstjórn hersins felld

Staðfest var í gær að Ísraelsher hefði náð að fella bæði Mohammad Bagheri, majór-hershöfðingja og yfirmann íranska herráðsins, sem og hershöfðingjann Hossein Salami, yfirmann íranska byltingarvarðarins. Þá féllu einnig hershöfðingjarnir Gholamali Rashid, næstráðandi íranska hersins, og Amir Ali Hajizadeh, yfirmaður flughers byltingarvarðarins.

Varnarmálaráðuneytið Ísraels sagði í yfirlýsingu sinni um árásirnar að helstu herforingjar flughersins hefðu verið á fundi í neðanjarðarbyrgi að undirbúa árás á Ísraelsríki þegar loftárás var gerð á byrgið, sem náði að fella þá flesta.

Eitt af skotmörkum Ísraels í loftárásunum í nótt var eldflaugastöðvar og loftvarnakerfi Írana, og var greint frá því í gærmorgun að ísraelska leyniþjónustan Mossad hefði náð að reisa sína eigin drónastöð í nágrenni Teheran, og hefðu drónar verið sendir þaðan til árása á eldflaugakerfin.

Árás síðla kvölds

Þá var hermt að Ísraelsher hefði einnig ráðist á vopnaverksmiðjur þar sem m.a. Shahed-sjálfseyðingardrónar eru framleiddir, en Íranir hafa m.a. sent þá til Rússlands, þar sem þeir hafa verið notaðir til árása á Úkraínu.

Óstaðfestar fregnir í gær hermdu að Íranir hefðu tjáð Rússum að þeir myndu stöðva vopnasendingar sínar til Rússlands tímabundið vegna árásanna.

Bandaríkjastjórn tók fram að hún hefði ekki haft neitt með árásirnar að gera og skoraði á Írani að ráðast ekki á herstöðvar Bandaríkjanna eða gegn öðrum hagsmunum þeirra í heimshlutanum.

Íranski byltingarvörðurinn sagði hins vegar í yfirlýsingu sinni um árásirnar í gær að þær hefðu verið framkvæmdar með fullri vitund og stuðningi „hinna illu herra í Hvíta húsinu“ og að Bandaríkin myndu fá „öflugan kinnhest“.

Ísraelsher lýsti því yfir í gærmorgun að Íranir hefðu sent um hundrað sjálfseyðingardróna til árása á Ísrael í hefndarskyni, en loftvarnir Ísraela náðu að stöðva þá flesta áður en þeir náðu að landamærum Ísraelsríkis. Þá sögðu stjórnvöld í Jórdaníu að þau hefðu stöðvað dróna og eldflaugar sem rufu lofthelgi landsins.

Íransher lýsti því svo yfir að hann hefði ekki gert neina drónaárás á Ísrael en hét því að Íranir myndu svara í „náinni framtíð“. Var neyðarástandi lýst yfir í Ísrael í gær og íbúar þar varaðir við því að von væri á stórri loftárás frá Íran. Ísraelsher hélt einnig áfram loftárásum sínum í gær yfir daginn og sprengdi m.a. upp eldflaugaverksmiðju.

Hófst gagnárás Írana svo síðar um kvöldið og skutu þeir tugum eldflauga á borgir í Ísrael og ollu nokkru tjóni.

Hvetur til samninga

Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi frá sér yfirlýsingu í gær vegna árásanna, þar sem hann hvatti klerkastjórnina til þess að „gera samkomulag“ um kjarnorkuáætlun sína áður en það yrði um seinan.

Varaði Trump við því að von væri á frekari dauða og eyðileggingu ef Íranir kæmu ekki að samningaborðinu, en fram kom í gær að Bandaríkjastjórn hafði vitneskju um árásirnar áður en Ísraelsher framkvæmdi þær.

Gert hafði verið ráð fyrir að Íranir og Bandaríkjamenn myndu hefja viðræður í Óman á sunnudaginn um kjarnorkuáætlunina en klerkastjórnin tilkynnti í gær að þeim viðræðum hefði verið slitið.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson