Óskar Þór Karlsson
Málefni PCC BakkaSilicon er nú til meðferðar í atvinnuveganefnd Aþingis. Fyrirtækið á í alvarlegum rekstrarörðugleikum og rekstrarstöðvun blasir við vegna undirboða á kísilmálmi sem framleiddur er í Kína. Haft er eftir einum af nefndarmönnunum, Njáli Trausta Friðbertssyni, að málið varði samkeppnishæfi okkar Íslendinga og hvort eðlilega sé staðið að framleiðslu kísilmálma í Kína. Því má svara strax: Það er ekki eðlilegt að neinu leyti.
Málið hefur einnig ratað til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem hefur til skoðunar ósk PCC um að fyrirtækið njóti viðskiptaverndar, og þá á forsendum undirboða frá Kína.
Ísland mun aldrei geta jafnað samkeppnishæfni ef miðað er eingöngu við framleiðslukostnað í Kína, sem byggist á ódýru vinnuafli sem brotið er gróflega á, bókstaflega á öllum sviðum. Það er þó rík ástæða til þess að bregðast við af þessari ástæðu einni, og þá með eins konar tollum vegna undirboða Kínverja. Það sýnir hins vegar þá ótrúlegu skinhelgi sem ríkir á þessum sviðum að það eru öll tormerki á því að þetta sé framkvæmanlegt vegna alþjóðlegra viðskiptaskilmála sem Ísland er bundið af. En það eru líka önnur mikilvæg atriði, sem varða samkeppnishæfni. Á sviði grænnar orku er Ísland heimsmeistari. Verksmiðjan á Bakka er knúin rafmagni, en sams konar verksmiðja í Kína fær orku sína frá brennslu á kolum í mjög miklu magni. Það mætti kannske huga að mengunargjaldi? Það fer lítið fyrir notkun grænnar orku í Kína því það ríki mengar langmest allra ríkja á jörðinni. Skrifari „spurði símann sinn“ (sem allt veit!) um árlega brennslu á kolum í Kína. Og svarið kom strax. Magnið af kolum sem brennt var á síðasta ári nam 4.500 milljónum tonna. Úr þessu ótrúlega magni mætti búa til þrjá, fjóra hauga sem hver um sig væri á stærð við Esjuna!
Til þess að gera þetta ofurlítið skiljanlegra er þetta magn sem samsvarar 12 þúsund tonnum á hvert einasta mannsbarn á Íslandi. Og það fer lítið fyrir „framlagi“ Kínverja til loftslagsmála, því notkun þeirra á kolum hefur aukist um 200 milljónir tonna á ári frá því sem var árið 2016. Þeir hafa líka reist álver og vel að merkja kísilmálmsvinnslur eins og enginn sé morgundagurinn. Og að þessu sögðu er rík ástæða til þess að minna á að ef þetta framferði Kína fær að viðgangast, og sama ábyrgðarleysi mun ríkja í heiminum, verða morgundagarnir reyndar ekkert ýkja margir áður en ólíft verður á jörðinni. Nánast öll stóriðja í Kína er drifin af kolum og 55% af allri kolabrennslu í heiminum eiga sér stað þar í landi. Lofthjúpur jarðar, lífsandinn sjálfur, á sér engin landamæri. Allir jarðarbúar þurfa að gjalda fyrir framferði Kínverja og annarra líkt þenkjandi þjóða. Það ætti því strax að leggja hátt mengunargjald á þetta hráefni frá Kína.
Til þess að koma því strax í framkvæmd hafa íslensk stjórnvöld sterka málefnalega stöðu.
Höfundur er eldri borgari.