Washington Hábyssa Bandaríkjahers af gerðinni M777 sést hér uppstillt til sýnis fyrir gesti og gangandi í National Mall-almenningsgarðinum.
Washington Hábyssa Bandaríkjahers af gerðinni M777 sést hér uppstillt til sýnis fyrir gesti og gangandi í National Mall-almenningsgarðinum. — AFP/Chip Somodevilla
Um sjö þúsund hermenn taka þátt í sýningu bandaríska hersins í Washington í Bandaríkjunum í dag. Til sýnis verða öll þau vopn og tæki sem herinn býr yfir, skriðdrekar, trukkar, flugvélar og þyrlur. Þetta verður fyrsta sýning Bandaríkjahers síðan árið 1991 þegar Persaflóastríðinu lauk

Sonja Sif Þórólfsdóttir

sonja@mbl.is

Um sjö þúsund hermenn taka þátt í sýningu bandaríska hersins í Washington í Bandaríkjunum í dag. Til sýnis verða öll þau vopn og tæki sem herinn býr yfir, skriðdrekar, trukkar, flugvélar og þyrlur. Þetta verður fyrsta sýning Bandaríkjahers síðan árið 1991 þegar Persaflóastríðinu lauk. Þá gegndi George H. W. Bush embætti forseta landsins.

Sá flotta sýningu í Frakklandi

Hersýninguna ber upp á 79 ára afmæli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta en hann hefur allt frá því á fyrra kjörtímabili sínu talað um að herinn myndi standa fyrir sýningu í höfuðborginni.

Var hann viðstaddur sýningu franska hersins á Bastilludaginn í Frakklandi árið 2017 og sagði við fjölmiðla að þetta hefði verið ein flottasta hersýning sem hann hefði séð. „Við getum hrint svona sýningu í framkvæmd,“ sagði Trump þá.

AFP-fréttaveitan greinir frá því að Trump hafi á fyrra kjörtímabili sínu látið kostnaðinn við slíka sýningu stöðva sig, en hann er metinn um 92 milljónir bandaríkjadala. Þá hefur einnig verið varað við því að það kunni að fara illa með götur Washington að aka skriðdrekum eftir þeim.

Plötur á götur

Frá því að hann tók aftur við völdum í Bandaríkjunum í janúar síðastliðnum hefur enginn getað stöðvað þessar fyrirætlanir Trumps um að halda almennilega hersýningu á bandarískri grundu. Búið er að komast fyrir það vandamál að skriðdrekar fari illa með göturnar, stálplötur verða lagðar yfir þær.

Ekki eru allir jafn hrifnir af hersýningunni og Trump. Peter Loge, forstöðumaður fjölmiðlaskóla George Washington-háskóla, segir við AFP að Bandaríkjamenn hafi alltaf litið niður á stórar hersýningar á Rauða torginu í Rússlandi eða í Norður-Kóreu. „Vegna þess að við erum ekki þannig. Við erum Bandaríkjamenn og trúum á lýðræði, ekki sýningar þar sem herstyrkur er sýndur,“ sagði Loge.

Höf.: Sonja Sif Þórólfsdóttir