Harpa Ólafsdóttir fæddist 14. júní 1965 á fallegum sólardegi á Fæðingarheimili Reykjavíkur, yngst fimm systkina. Hún gekk í Álftamýrarskóla og fór síðar í Verzlunarskóla Íslands. „Ég hafði áhuga á bókhaldi og var meira fyrir raungreinar í skóla. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á tölum og stærðfræði, og því lá beint við að fara í Versló,“ segir hún og hlær. „Það var dásamlegur tími að vera í Versló og þar eignaðist ég vinkonur fyrir lífstíð, og við erum ennþá saman í saumaklúbbi.“
Fjölskyldan átti sterkar rætur í sveitina og Harpa ólst við að fara mikið út á land. „Ég var ekkert í íþróttum en var þeim mun meira hlaupandi úti í móa að smala hrossum. Foreldrar mínir áttu sumarhús norður í landi og við vorum mikið í hestamennsku og að veiða,“ segir hún og bætir við að allar götur síðan hafi hún verið mikið náttúrubarn og kunni hvergi betur við sig en úti í náttúrunni. „Svo var mamma úr Laugardalnum rétt hjá Laugarvatni og við fórum líka oft þangað að heimsækja ættingja.“
Árið 1985 útskrifaðist Harpa úr Verzlunarskólanum og fór til Þýskalands í framhaldsnám. „Ég fór um sumarið og lærði fyrst þýsku í Goethe Institut í háskólabænum Göttingen og fór síðan í grunn- og framhaldsnám í þjóðhagfræði í Georg-August háskólanum í sama bæ og útskrifaðist árið 1991. „Ég flutti hestinn minn út þegar ég var í námi. Ég hafði verið að kenna íslensku í lýðháskóla í Göttingen og þar kynntist ég hestafólki og það þróaðist þannig að föðurbróðir minn, sem er mikill hestamaður, fór að flytja út hesta til Þýskalands. Ég þurfti síðan að selja hann áður en ég kom heim, því það var ekki leyft að flytja inn hesta til Íslands.”
„Ég var úti í Þýskalandi þegar múrinn féll 1989 og það var mikil upplifun,“ segir hún og bætir við að Göttingen sé rétt hjá fyrrverandi austurþýsku landamærunum.
Harpa var í fimm ár í Þýskalandi en fór heim á sumrin og vann þá hjá Ræsi að selja Mercedes-Benz bíla. Eftir námið hélt hún áfram að vinna hjá Ræsi en fór síðan í hugbúnaðargeirann og vann hjá Hug hugbúnaðarhúsi. „Þar kynntist ég því að vinna við greiningarvinnu, sem nýttist mér síðan mjög vel í seinni vinnu sem tengist kjaramálum, stefnumótun og öðru slíku.“
Harpa byrjaði hjá Eflingu árið 2003 og var sviðsstjóri kjaramála í fimmtán ár. „Þar kynntist ég alveg frábæru fólki og reynsla mín við gagnagrunnsvinnu nýttist vel í starfinu.“ Frá Eflingu fór Harpa til Reykjavíkurborgar í fjögur ár sem skrifstofustjóri kjaramála og var formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar. „Það voru mörg skref stigin á þessu tímabili, eins og stytting vinnuvikunnar, og margt í gangi.“ Frá árinu 2022 varð hún skrifstofustjóri kjara- og réttindasviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, þar til hún réð sig til Bændasamtakanna um síðustu áramót.
Áhugamál Hörpu eru fjölbreytt og ber þar hæst útivistina. Hún segist ekki vera með hesta núna en hún stundi sjósund. „Mér finnst mjög gaman að synda í sjónum en er alltaf með hanska og sokka og fer aldrei ein.“ Síðan byrjaði Harpa í golfi 2017. „Ég gutla svona í golfinu en þetta er frábær félagsskapur.“
Um páskana fór hún í afmælisferð með sonum sínum, sem héldu upp á þrítugsafmælið í mars og hún sextugsafmælið í dag. „Ég var svo heppin að þeir vildu fara í svona ferð með mömmu sinni, og við fórum í siglingu um Adríahafið frá Feneyjum.“
Harpa segir að þegar hún hafi komið úr ferðinni hafi hún greinst með krabbamein. „Ég er byrjuð í sex mánaða lyfjameðferð, og það kemur sér vel hvað ég er í góðu formi eftir að hafa hreyft mig svona mikið úti. Ég fæ mikinn stuðning frá Bændasamtökunum í þessu verkefni og einnig hef ég notið stuðnings Ljóssins, sem eru stórkostleg samtök.“
Fjölskylda
Harpa var gift Erlingi Erlingssyni, f. 20.3. 1961, þau skildu. Þau eiga saman tvíburasynina Agnar, kerfisfræðing hjá Sensa, og Egil, verkfræðing hjá Samey Robotics, f. 8.3. 1995.
Systkini Hörpu eru 1) Sigrún, kennari, f. 13.12. 1950, d. 17.9. 2008; 2) Flosi, múrarameistari, f. 13.3. 1956, d. 2.4. 2008; 3) Vörður, húsasmíðameistari, f. 29.7. 1961. Samfeðra systir er Lilja, fv. forstöðumaður, f. 28.3. 1943.
Foreldrar Hörpu voru hjónin Valgerður Guðmundsdóttir, húsfreyja frá Böðmóðsstöðum í Laugardal, f. 10.1. 1927, d. 13.9. 2020, og Ólafur Hólmgeir Pálsson, múrarameistari frá Sauðanesi í Ásum, f. 7.7. 1926, d. 4.1. 1943. Þau bjuggu í Reykjavík.