Marín Guðrún Hrafnsdóttir
Marín Guðrún Hrafnsdóttir
Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands, segir að starfsfólk safnsins muni skoða ábendingar Rithöfundasambands Íslands um starfsemi þess og reyna að gera bragarbót á. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni var samþykkt…

Marín Guðrún Hrafnsdóttir, forstöðumaður Hljóðbókasafns Íslands, segir að starfsfólk safnsins muni skoða ábendingar Rithöfundasambands Íslands um starfsemi þess og reyna að gera bragarbót á.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í vikunni var samþykkt ályktun á aðalfundi Rithöfundasambandsins fyrir skemmstu þar sem sambandið hvatti Hljóðbókasafnið til að huga vandlega að réttindum höfunda í starfsemi safnsins. Vísað var til misnotkunar á aðgangsréttindum hjá safninu, fjöldi útlána Hljóðbókasafnsins árið 2024 hefði numið 346.173 eintökum en það væri nánast eitt eintak á hvern landsmann. „Og þegar útlán eru svo mörg hlýtur að mega draga þá ályktun að fleiri séu að nýta aðgang en eiga lagalega heimild til þess. Ljóst má vera að ólögmæt notkun getur skert tekjumöguleika höfunda verulega á litlum markaði þar sem höfundar eiga mikið undir hefðbundinni bóksölu, sem virðist dragast saman ár frá ári,“ segir í ályktuninni.

„Rithöfundasambandið telur einnig brýnt að safnið loki á möguleika á niðurhali hljóðbóka, enda hefur borið á ólögmætri dreifingu slíkra eintaka,“ sagði þar enn fremur.

„Við munum svara ályktun Rithöfundasambandsins á næstu dögum, en Hljóðbókasafnið leggur mikið upp úr góðu sambandi við Rithöfundasambandið og mikið hefur áunnist síðustu ár,“ segir Marín.

„Við skoðum þetta að sjálfsögðu af alvöru og vinna við að bæta varnir enn frekar er alltaf í gangi. Grundvöllur þjónustu safnsins er þjónusta við þá sem glíma við leshömlun. Safnið er aðgengissafn og á sér fjölda sambærilegra systurstofnana um allan heim sem vinna á sömu forsendum inngildingar.“