Guðlaugur Þór Þórðarson
Guðlaugur Þór Þórðarson
Frumvarpið sem keyra á í gegnum þingið án mikillar umræðu og lítils undirbúnings er illa ígrunduð aðgerð og skemmir eina vönduðustu löggjöf sem gilt hefur hérlendis um fjármál hins opinbera.

Guðlaugur Þór Þórðarson

Lög um opinber fjármál sem tóku gildi 1. janúar 2016 mörkuðu mikil tímamót. Í áratugi höfðu stjórnvöld byggt áætlanagerð sína á tiltölulega einfaldri löggjöf sem einkum varðaði útgjöld til ótal verkefna ríkisins.

Markmið hinna nýju laga var svo miklu meira. Ný lög skyldu ná til ríkis og sveitarfélaga og nútímavæða áætlanagerð hins opinbera, bæta yfirsýn Alþingis yfir þróun fjármála ríkisins og treysta framkvæmd fjárlaga. Lögin voru afrakstur margra ára undirbúnings og um þau náðist breið samstaða allra flokka á þingi. Til viðbótar við innlenda sérfræðinga var ráðgjöf sótt til færustu sérfræðinga frá OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, auk þess sem sótt var í smiðju reynslu og þekkingar frá nágrannalöndunum, einkum Svíþjóð og Danmörk. Nú þegar nánast tíu ár eru liðin frá því að lögin tóku gildi er skynsamlegt að meta reynsluna og endurskoða lögin. Margt hefur gerst á liðnum árum, s.s. áhrif covid-faraldursins, auk þess sem stjórnkerfið þarf sinn tíma í að læra nýtt gangverk fjármála ríkis og sveitarfélaga. Þrátt fyrir að vinnubrögð við undirbúning og framkvæmd fjárlaga hafi verið stórbætt með tilkomu laganna er augljóst að hægt er að gera betur. En það verður að vanda sig.

Hin svokallað verkstjórn fer ekki þá leið, heldur leggur hún fram frumvarp um eitt af lykilatriðin nýrra laga sem varðar niðurgreiðslu skulda. Og frumvarpið á að klára sem allra fyrst án mikillar umræðu. Af hverju er það slæmt?

Það er óábyrgt að breyta grunnforsendum opinberra fjármála án heildstæðrar greiningar á virkni laganna.

Að breyta lögum á grunni slíkra vinnubragða grefur undan trausti á opinberum fjármálum.

Innleiða á „stöðugleikareglu“ sem er rangnefni því um er að ræða einhvers konar veikburða útgjaldareglu. Stöðugleiki í efnahagsmálum felur í sér aðgerðir sem taka mið af hagsveiflu en hér um að ræða nánast lekt þak sem á að verða að gólfi um hámark á ríflegri útgjaldaaukningu.

„Stöðugleikareglan“ miðar við raunútgjöld. Hugtakið „raunútgjöld“ er mjög flókið hugtak og engan veginn gagnsætt. Það kemur enn fremur hvergi fram í mælikvörðum laganna um opinber fjármál eða í alþjóðlegum stöðlum.

Einungis er miðað við um 80% ríkisútgjalda í frumvarpinu og er það mun lægra hlutfall en hjá samanburðarlöndunum þegar kemur að takmörkunum á útgjaldavexti.

Fagaðilar benda á að miðað við 2% aukningu séríslensku „raunútgjaldanna“ á ári ætti talan að vera 1,6% í ljósi þess að einungis er miðað við 80% ríkisútgjalda.

Að auki er boðuð aukning til varnarmála, sem er mikil á íslenskan mælikvarða en minni en framlögin hafa verið hjá nágrannalöndunum, utan fyrirhugaðrar reglu. Þannig að hlutfall ríkisútgjalda sem miðað er við lækkar enn frekar.

Ný skuldaregla er ekki með neinum niðurgreiðsluákvæðum og er fyrst og fremst tiltölulega óljós viljayfirlýsing um skuldalækkun.

Ekki er tekið á raunverulegum vanda opinberra fjármála, sem er framkvæmd og eftirfylgni með framkvæmd fjárlaga.

Kjarni máls er að frumvarpið sem keyra á í gegnum þingið án mikillar umræðu og með litlum undirbúningi er illa ígrunduð aðgerð og skemmir eina vönduðustu löggjöf sem gilt hefur hérlendis um fjármál hins opinbera. Það mun ekki taka á vandanum og jafnvel auka hann og mun þar af leiðandi veikja traust og festu í opinberum fjármálum.

Lög og umgjörð um opinber fjármál eru örugglega ekki skammtímavinsældamál en þau eru grunnur að stöðugleika og velferð í okkar landi. Lögin voru samin með almenningshagsmuni að leiðarljósi til að til að treysta sameiginleg fjármál okkar.

Höfundur er þingmaður Reykvíkinga.

Höf.: Guðlaugur Þór Þórðarson