Antonio Guterres, framkvæmda- stjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í gær bæði Ísraela og Írani til þess að sýna stillingu og forðast stríð með öllum ráðum. Sagði Guterres að Mið-Austurlönd hefðu ekki efni á hörðum átökum í heimshlutanum

Antonio Guterres, framkvæmda-
stjóri Sameinuðu þjóðanna, hvatti í gær bæði Ísraela og Írani til þess að sýna stillingu og forðast stríð með öllum ráðum. Sagði Guterres að Mið-Austurlönd hefðu ekki efni á hörðum átökum í heimshlutanum.

Yfirlýsing hans kom eftir að Rafael Grossi framkvæmdastjóri alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar, IAEA, varaði við því að árásir á kjarnorkuver og aðra staði sem tengjast kjarnorku gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir bæði Íran og heimshlutann allan. Sagði Grossi þróunina mjög varhugaverða og hvatti einnig alla til þess að sýna stillingu.

Stjórnvöld í Rússlandi lýstu yfir áhyggjum sínum. Dmitrí Peskov, talsmaður Pútíns Rússlandsforseta, sagði Rússa fordæma þessa stigmögnun af hálfu Ísraels, og að loftárásirnar hefðu verið bæði óásættanlegar og ástæðulausar með öllu. Rússneska sendiráðið í Tel Avív skoraði á alla Rússa að yfirgefa Ísrael í gær.

Lin Jian, talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, sagði að Kínverjar hefðu þungar áhyggjur af afleiðingunum sem loftárásirnar gætu haft í för með sér og skoraði á hlutaðeigandi að stuðla að friði og stöðugleika í heimshlutanum.

Styðja friðarviðleitni

Kaja Kallas utanríkismálastjóri Evrópusambandsins sagði að ástandið í Mið-Austurlöndum væri hættulegt. Skoraði hún sömuleiðis á alla aðila að sýna stillingu og forðast frekari stigmögnun, og sagði ESB reiðubúið að styðja hvers kyns viðleitni til þess að draga úr spennunni.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti tók sömuleiðis undir hvatningarorð um að kynda ekki undir ástandinu, en tók fram að Frakkar styddu rétt Ísraels til þess að verja sig og tryggja öryggi sitt.

Leiðtogar helstu Arabaríkja fordæmdu hins vegar aðgerðir Ísraels og sögðu þær hella olíu á eldinn. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði að árásin væri ögrun sem sniðgengi alþjóðalög, og skoraði hann á alþjóðasamfélagið að binda enda á „þorparaskap“ Ísraels.

Þá sögðust Hútar í Jemen styðja rétt Írana til þess að svara árás Ísraelshers með öllum mögulegum hætti.