Haraldur Sveinsson fæddist 15. júní 1925 og því eru 100 ár frá fæðingu hans á morgun, sunnudag. Haraldur var sonur Sveins M. Sveinssonar, forstjóra Völundar, og konu hans Soffíu Emelíu Haraldsdóttur og átti systkinin Svein Kjartan, Leif og Bergljótu, sem öll eru látin.
Haraldur varð stúdent frá MR 1944 og var sölumaður hjá Timburversluninni Völundi hf. og síðar forstjóri fyrirtækisins. Hann var framkvæmdastjóri Árvakurs 1968-1995. Hann sat í stjórn fjölmargra fyrirtækja og félagasamtaka á ferlinum, m.a. í stjórn Árvakurs frá 1951 og formaður 1954-1955; í stjórn Völundar hf. 1951-1987; í stjórn Verslunarráðs Íslands 1954-1980; í sambandsstjórn Vinnuveitendasambands Íslands 1969-1986 og í framkvæmdastjórn 1978-1985; í stjórn hestamannafélagsins Fáks og Landssambands hestafélaga um árabil og var félagi í Rótarý.
Haraldur kvæntist Agnesi Jóhannsdóttur og þau áttu börnin Soffíu, Ásdísi, Jóhann og Svein. Haraldur var mikill hestamaður og þau Agnes áttu annað heimili á Álftanesi á Mýrum í Borgarfirði.
Haraldur lést í Brákarhlíð í Borgarnesi 21. september 2019.