Starfslok Innri endurskoðandi hefur látið af störfum vegna skipulagsbreytinga. Stofnun hans fer með eftirlit með stjórnsýslu borgarinnar.
Starfslok Innri endurskoðandi hefur látið af störfum vegna skipulagsbreytinga. Stofnun hans fer með eftirlit með stjórnsýslu borgarinnar. — Morgunblaðið/Eggert
Hallur Símonarson hefur látið af störfum sem innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar (IER). Þorsteinn Gunnarsson borgarritari segir að gerðar hafi verið ákveðnar skipulagsbreytingar á starfi innri endurskoðanda í byrjun mars og þetta sé gert í góðri sátt

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Hallur Símonarson hefur látið af störfum sem innri endurskoðandi Reykjavíkurborgar (IER). Þorsteinn Gunnarsson borgarritari segir að gerðar hafi verið ákveðnar skipulagsbreytingar á starfi innri endurskoðanda í byrjun mars og þetta sé gert í góðri sátt.

Mikið hefur mætt á embætti Halls að undanförnu. Þrjú stór mál sem borgarráð vísaði til IER hafa verið til umfjöllunar. Þau snúast um bensínstöðvalóðirnar til olíufélaganna, leikskólann Brákarborg og Álfabakka 2a, græna gímaldið svokallaða.

Fær greidd laun í eitt ár

Borgarritari var spurður hver væri ástæðan fyrir því að innri endurskoðandi væri hættur störfum:

„Það var gert samkomulag í desember um starfslok, en að öðru leyti tjáum við okkur ekki um einstök starfsmannamál.“

Þetta er meira en einstakt starfsmannamál. Hér er um að ræða forstöðumann stofnunar sem fer með eftirlit með stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Var honum vikið frá störfum?

„Honum var ekki vikið frá störfum. Þetta er samkomulag um starfslok og þegar svo er tjáum við okkur ekki um einstök starfsmannamál.“

Hvernig er samningurinn?

„Þetta er hefðbundið fyrirkomulag ef það er gert með þessum hætti. Hans réttindi voru sex mánuðir en samkomulagið um starfslokin eru eitt ár.“

Þessar stjórnsýsluúttektir sem eru í vinnslu hjá IER, bensínstöðvalóðirnar, Brákarborg og græna gímaldið, höfðu þær áhrif á þessa ákvörðun?

„Nei, alls ekki,“ segir Þorsteinn Gunnarsson borgarritari.

Ætluð kjörnum fulltrúum

Innri endurskoðun heyrir undir borgarráð og ber að gæta hlutleysis í störfum sínum og starfa óháð þeim rekstrareiningum sem hún endurskoðar. Hún er ætluð kjörnum fulltrúum til aðstoðar við eftirlit með stjórnsýslu borgarinnar. Við borgarstjóraskipti í janúar 2024, þegar Einar Þorsteinsson tók við af Degi B. Eggertssyni, tók Dagur við formennsku í borgarráði. Frá og með þeim tíma hefur Hallur Símonarson verið í fríi, sem lauk með fyrrgreindum starfslokasamningi.

Gagnrýndi stjórnsýslu í braggamálinu

Í borgarstjóratíð Dags voru ýmsar skýrslur unnar um stjórnsýslu borgarinnar, m.a. um braggamálið, um skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (SEA) og um Orkuveituna. Niðurstaða IER í braggamálinu var að kostnaðareftirliti hefði verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar ekki verið nægjanleg. Einnig komu fram athugasemdir og ábendingar um hvað mætti betur fara í stjórnsýslunni í öðrum úttektum IER.

Í skýrslu IER um leikskólann Brákarborg, sem var lokað vegna galla tveimur árum eftir að hann var opnaður og fór 68% fram úr kostnaðaráætlun, koma fram sömu eða svipaðar athugasemdir og komu fram í braggaskýrslunni.

Fleiri háttsettir hætta

Hallur er annar háttsetti embættismaðurinn sem hefur verið leystur frá störfum á undanförnum vikum. Birni Axelssyni skipulagsfulltrúa var líka sagt upp á grundvelli skipulagsbreytinga.

Hallur hóf störf hjá Reykjavíkurborg árið 2001 og hafði gegnt starfi innri endurskoðanda frá árinu 2006. Ingunn Ólafsdóttir var starfandi innri endurskoðandi á meðan Hallur var í leyfi og mun sinna því áfram um sinn, en staða innri endurskoðanda hefur ekki verið auglýst til umsóknar.

Hlutverk innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar er að veita óháða og hlutlæga staðfestingu og ráðgjöf sem er ætlað að vera virðisaukandi og bæta rekstur Reykjavíkurborgar, fyrirtækja og stofnana hennar.

Ekki náðist í Hall Símonarson við vinnslu fréttarinnar.

Höf.: Óskar Bergsson