Axel Helgason, íbúi í Hvalfjarðarsveit, er mjög ósáttur við framgöngu sveitarfélagsins í máli er varðar umsókn hans um framkvæmdaleyfi fyrir smávirkjun í á sem rennur um land hans að Þórisstöðum. Baráttan fyrir leyfinu hefur þegar tekið um þrjú ár og ekki sér enn fyrir endann á henni.
Sveitarfélagið fer fram á að framkvæmdin fari í deiliskipulag en Axel telur þá ákvörðun og ferlið að baki henni brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.
Það er m.a. vegna þess að leitað var til lögfræðings sveitarfélagsins í stað Skipulagsstofnunar til að meta hvort þörf væri á deiliskipulagi en Axel segir það mjög óvenjulegt.
„Það er engan veginn hægt að sjá að þeir fylgi jafnræðisreglu stjórnsýslulaga við afgreiðslu umsóknar okkar. Þau hafa ekki lagt fram nein gögn til að rökstyðja ákvörðun sína og neita að svara spurningum mínum sem hefðu leitt í ljós hvort jafnræðis væri gætt,“ segir Axel. » 20-22