Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Væri ekki upplagt að gera eitt kvöld í viku að fjölskyldukvöldi?

Einar Ingvi Magnússon

Mormónar eiga sér góðan, gagnlegan og skemmtilegan sið sem þeir nefna fjölskyldukvöld. Þetta eru mánudagskvöld, þegar fjölskyldan og trúboðar hittast og skemmta sér saman í leik á margvíslegan og fræðandi hátt. Á borðum eru heilsusamlegir drykkir, matföng og meðlæti. Svo er alltaf lesið úr guðsorði, svo menn fái einnig andlega næringu.

Áður fyrr áttu Íslendingar sér svipaða hefð, þegar heimilisfólk kom saman í stofu og lesnir voru svokallaðir húslestrar á kvöldvökum. Þá var lesið upp úr ýmsum bókum, þar á meðal trúarritum þess tíma, sem enn eru til í dag, á meðan karlmennirnir skáru út skeiðar og aska og kvenfólkið spann ullarþræði til sauma og til að gera nauðsynleg klæði og annað, úr garni, sem þörf var á til heimilisnota. Þá var hlustað með virðingu á guðsorðið, sem húsbóndinn á heimilinu las, auk þjóðlegs fróðleiks úr bókmenntum þessara tíma. Rímur voru kveðnar og venjulega var kátt á hjalla í kotum Íslendinga á öldum áður.

Nú til dags situr heimilisfólk hvert í sínu horni, sokkið ofan í tölvur, spjaldskjái og síma. Einstaka sinnum pöntuð pítsa, sem sendill kemur með heim að dyrum, án þess að guða á glugga. Hún er borðuð af heimilisfólki í sinni tölvuveröld, ef það er ekki á ferðalögum langt frá heimahögum úti um víða veröld.

Væri ekki upplagt að gera allavega eitt kvöld í viku að fjölskyldukvöldi, eins og mormónar gera í dag, leggja tölvur og farsíma til hliðar og njóta samveru heimilisfólksins? Þótt húslestrar liðinna alda heyri fortíðinni til mætti vekja þá til lífsins að nýju með þeim tilgangi að sameina fjölskylduna og styrkja fjölskylduböndin með gömlum, góðum, gagnlegum og skemmtilegum siðum, sem gerðu fólki gott á heilbrigðan hátt hér áður fyrr.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.

Höf.: Einar Ingvi Magnússon